137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:43]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir viðbrögðin við nefndaráliti og þeirri ræðu sem flutt var fyrir því áðan. Það er alveg hárrétt sem kemur fram í máli hans að þar var og er farið vítt og breitt um þetta gríðarlega mikla mál og sömuleiðis í nefndaráliti við 2. umr.

Það er alveg rétt að lögin um tryggingakerfi innstæðueigenda voru innleidd í stjórnartíð þessara flokka á sínum tíma og auðvitað bera þeir ábyrgð á því. Ég hef aldrei vikið mér sem sjálfstæðismaður undan í þeim efnum. En ég minni hv. þingmann líka á þau gögn sem við höfum fengið í fjárlaganefndinni, upplýsingar úr meðferð þingsins á því máli þar sem voru uppi tillögur m.a. frá hæstv. forsætisráðherra sem gegndi þá starfi alþingismanns um að kveða skýrar á um ábyrgð íslenska ríkisins varðandi tryggingar á innstæðum innstæðueigenda. Sem betur fer var ekki farið að þeim tilmælum. Og sömuleiðis flutti, ef ég man rétt, hæstv. núverandi ráðherra, Ögmundur Jónasson, mál sitt með sömu áherslu. Ef vilji er til þess að tengja þetta fortíð stjórnmálaflokkanna með þeim hætti sem hér er boðið upp í væri ég alveg til í þá umræðu. Ég held að það þjóni bara engum tilgangi við afgreiðslu þessa máls að horfa sýknt og heilagt aftur í sætið og reyna að vekja þar upp einhverja gamla drauga. Við erum að reyna að horfa fram á veginn við úrlausn þessa máls og þannig höfum við unnið í fjárlaganefndinni og ég heiti á hv. þingmann að vinna með þeim ágæta hætti áfram sem hann hefur gert í fjárlaganefnd.