137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við ætlum að ræða um þetta mál eins og við séum í réttarsal er ég alveg tilbúinn til þess og nefni að sú tillaga sem Vinstri græn og Samfylking fluttu við afgreiðslu þessa máls á sínum tíma hefði þýtt að öllu óbreyttu, ef hún hefði náð fram að ganga, um 400 milljarða hærri skuldbindingu en við ræðum um í dag. Sem betur fer náði hún ekki fram að ganga en ég bendi á að við drögum það fram í áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar, sem hér hefur verið lagt fram, að íslensk stjórnvöld á þessum tíma urðu að innleiða gallaða tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar og undan því varð ekki vikist. (Gripið fram í: Rétt.) Á þeirri löggjöf eru þeir gallar sem við höfum verið að velta okkur upp úr í fjárlaganefndinni og í umræðunni á Alþingi. Við viljum kanna allar leiðir og sjá hvort við eigum möguleika á því — og þar er ég að horfa fram á veginn — að sækja réttarbót handa íslenskum skattgreiðendum m.a. vegna þess sem hefst af því að samþykkja það frumvarp sem hér liggur fyrir.

Því öllu skulum við halda saman og leita leiða svo unnt sé að mæta þessu frumvarpi og áhrifum þess með betri og viðunandi hætti fyrir íslenska skattgreiðendur en ekki síst til þess að standa öflugri vörð um réttindi og hagsmuni íslenskrar þjóðar en var gert við smíði þess gallaða frumvarps sem lagt var fram á Alþingi 2. júlí sl.