137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að aðalatriði þessa máls er að verði það niðurstaða Alþingis, sem allt bendir til, að þessar breytingartillögur verði samþykktar hafi það þau áhrif að við erum í raun og veru að hafna óbreyttum samningnum sem hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin gerði. Við erum með þessum hætti að fara inn í samninginn einhvers konar Krýsuvíkurleið með því að hafna ríkisábyrgðinni eins og lagt var upp með og setja þess í stað mjög ströng skilyrði. Það er líka alveg rétt sem hv. þingmaður sagði að það sem gerist að samþykktum þeim breytingartillögum sem fyrir okkur liggja núna er að það er í raun og veru búið að skilyrða málið á þann veg að ríkisábyrgðin verður ekki veitt fyrr en samningsaðilar okkar hafa fallist á þau skilyrði, þá fyrirvara sem Alþingi ræðir hér um. Það er gríðarlega mikilvægt. Það bindur hendur viðsemjenda okkar og gerir það að verkum að fyrirvararnir sem við erum búin að samþykkja við 2. umr. og þeir fyrirvarar sem við munum samþykkja væntanlega við 3. umr., verða bindandi. Þeir hafa áhrif gagnstætt því sem ýmsir óttuðust þegar málið var komið í gegnum 2. umr. og breytingartillögurnar höfðu verið samþykktar.

Kjarni málsins er þó það sem hv. þingmaður benti á: Það mál sem hér er verið að fjalla um og við erum að ganga til ákvörðunar um von bráðar, mun hafa þau áhrif að samningnum sem slíkum, þótt hann sé ekki á borðum þingmanna til ákvörðunar eða afgreiðslu, verður að breyta með einhverjum hætti. Það er út af fyrir sig rétt að það er ekki aðalatriðið hvort það verður gert með viðauka að nýjum samningum eða öðru. Aðalatriðið er að við erum að hafna samningnum eins og hann liggur fyrir.