137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Við erum í lokaumræðu máls sem er sennilega eitthvert hið umdeildasta og erfiðasta sem Alþingi hefur tekið fyrir. Getur hæstv. forseti gert ráðstafanir til að a.m.k. einhverjir ráðherrar séu viðstaddir þessa umræðu svo þeir geti tekið þátt í henni og veitt þau svör sem ég held að margir þingmenn kalli eftir, a.m.k. þeir ráðherrar sem hafa haft hvað mest um þetta mál að segja, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ráðherrar fjármála, viðskipta og utanríkismála?

Einnig er það athyglisvert að ekki einn einasti stjórnarþingmaður hefur sett sig á mælendaskrá í lokaumræðu þessa máls. Hér hafa að vísu tveir stjórnarþingmenn talað en í báðum tilvikum voru það fulltrúar úr fjárlaganefnd sem þurftu að gera grein fyrir nefndaráliti. Það er mjög sérkennilegt að í svona máli sem eru svo skiptar skoðanir um og mjög ólíkar túlkanir á, túlkanir sem munu skipta miklu máli um framhaldið, skuli enginn stjórnarþingmaður ætla að tjá sig.