137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:42]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Frú forseti. Hér erum við í 3. umr. Icesave-málsins og eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson benti á rétt áðan þorir ríkisstjórnin ekki að láta sjá sig í salnum, enginn stjórnarliða, og það er, eins og fram hefur komið fyrr í dag í gagnrýni á ríkisstjórnina, ekkert undarlegt. Ríkisstjórnin og ábyrgð hennar í þessu máli er mikil og ég tek að mjög mörgu leyti undir gagnrýni hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar og 1. minni hluta fjárlaganefndar, á ríkisstjórnina um það hvernig hún hefur gengið fram í þessu máli.

Hér er aftur á móti um að ræða mál sem núverandi ríkisstjórn fékk í fangið, það má ekki gleyma því. Og hér er um að ræða mál sem er á ábyrgð allra flokka sem nú eru á þingi nema Borgarahreyfingarinnar. Það hófst, eins og ég hef áður sagt, með einkavinavæðingu bankanna á sínum tíma þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur voru í ríkisstjórn. Það hélt áfram í þeirri græðgisfirringu sem stanslaust var kynt undir af hugmyndafræðingum á hægri væng stjórnmálanna á Íslandi. Það hélt áfram í þeirri græðgisvæðingu sem fylgdi yfirlýsingum sumra um fé án hirðis sem lægi hingað og þangað um landið og þyrfti að koma í vinnu einhvers staðar til að menn gætu grætt meira. Við sitjum í dag uppi með allan þann gróða og hann er enginn, hann er minni en enginn. Hann er orðinn að skuld sem á að varpa yfir á almenning í landinu vegna þess að það er ekki hægt að gera neitt annað.

Þetta Icesave-mál er mjög vont mál og það er vont með hvaða hætti ríkisstjórnin kom með það inn í þingið. Það er vont hvernig átti að afgreiða það í upphafi. Það var hins vegar tekið af framkvæmdarvaldinu af Alþingi og lagað mjög mikið vegna þess að almennir þingmenn sáu að hér þurfti að leggja á sig mikla vinnu til að bæta þetta mál. Það átti við um þingmenn stjórnarandstöðunnar og þingmenn stjórnarinnar að menn náðu að rétta höndina yfir borðið og vinna málið að mjög miklu leyti sameiginlega og er það mjög gott.

Þetta mál og þessir samningar voru það vond að það tók nærri átta vikur fyrir Alþingi, fyrir fjárlaganefnd og fyrir tugi, ef ekki á annað hundrað, sérfræðinga sem komu fyrir nefndina, það tók nærri átta vikur að vinda ofan af því máli og gera það skaplegt til að þingið gæti sent það frá sér og gengið frá lögum sem þurfa að fylgja því. Það tók þetta langan tíma vegna þess að þessir samningar voru það vondir, við skulum ekki gleyma því. Þetta voru ekki glæsilegir samningar og ábyrgð fjármálaráðherra að hafa skrifað undir þá jafnvel þótt hann vissi að samflokksmenn hans væru ekki allir sammála því, er mikil. Hún hefur kostað þingið tvo mánuði af starfstímanum í sumar sem betur hefðu farið í að fjalla um vanda heimilanna, vanda almennings og vanda fyrirtækjanna. En það fór sem fór og hér eru við að reyna að klára þetta mál. Mér finnst líka athyglisvert að vita að aðkoma Alþingis að þessu máli, þó að hún hafi að mestu leyti verið góð, var ekki að öllu leyti til sóma. Ég leyfi mér að benda á eitt ákveðið mál í því sambandi sem kom upp mjög fljótlega en það er álit dósents í alþjóðarétti við Háskóla Íslands, Elviru Méndez, sem leit dagsins ljós á upphafsstigi málsins þar sem hún benti einfaldlega á að þessir samningar væru með þeim hætti að Evrópusambandið mundi sennilega hafna þeim sem lögmætum samningum vegna þess hversu mikið hallaði á annan samningsaðilann í þeim. Þeir eru ólöglegir vegna þessa að það hallar svo mikið á Ísland.

Elvira vann álitið upp á sitt einsdæmi, 26 blaðsíðna álit einhvers færasta sérfræðings landsins í Evrópurétti, en fær ekki greitt fyrir það. Nefndasvið Alþingis hafnar því að greiða henni fyrir þetta álit þrátt fyrir að það hafi verið eitt af grunnplöggum málsins í fjárlaganefnd og eitt af grunnplöggum málsins í utanríkismálanefnd. Alþingi setur niður við þetta og það er í rauninni með ólíkindum að smávægileg formsatriði skuli verða til þess.

Hinu má samt ekki gleyma að þó að fjárlaganefnd og Alþingi hafi náð einhvers konar þverpólitískri samstöðu um flesta þætti þessa máls hefði það aldrei náðst fram ef ekki hefði komið til hugrakkir VG-liðar sem settu hausa sína á höggstokkinn, gengu fram fyrir skjöldu í sínum flokki og sögðu við forustu sína: Hingað og ekki lengra, við samþykkjum þetta mál ekki óbreytt. Sumir þeirra urðu fyrir aðkasti frá eigin flokksmönnum, miklu aðkasti frá samstarfsþingmönnum í ríkisstjórnarmeirihlutanum. Þeir buguðust hvergi og stóðu sig vel og það er fyrst og fremst þeim að þakka, hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, Lilju Mósesdóttur og Ögmundi Jónassyni, að þó náðust fram breytingar á þessu frumvarpi sem í upphafi var svo vont. Framganga hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, sem nú er að labba út, og Guðbjarts Hannessonar, formanns fjárlaganefndar, var til mikils sóma. Þeir voru sanngjarnir og lögðu sig fram um að fjárlaganefnd afgreiddi málið með vönduðum hætti. Ber að halda því til haga líka. Mér er til efs að nokkurn tíma hafi nokkur þingnefnd á vegum þingsins unnið mál með þessum hætti og jafnnákvæmlega og hv. fjárlaganefnd gerði og þó að ekki hafi alveg allir verið sáttir við niðurstöðuna þá er hún ágæt.

Að gera fyrirvara við mál sem þetta var í upphafi álitið ómögulegt en eins og ég sagði áðan tók það átta vikur og það var gert. Settir voru fyrirvarar við málið sem eru skýrir, sem eru skilmerkilegir og sem eru sanngjarnir og það voru settir fyrirvarar við málið sem eftir 2. umr. á þinginu eru þess eðlis að þeir munu halda. Í viðbótum við 1. gr. breytingartillagnanna segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá.“

Það er líka tekið fram í nýrri breytingu við 3. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Greiðsluskylda lánasamninganna skal aldrei vera meiri en hámark ríkisábyrgðar, sbr. 3. mgr.“

Hér er um að ræða þá efnahagslegu fyrirvara sem settir voru við þetta frumvarp sem eiga upptök sín hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal með aðstoð hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar. Og í framhaldinu náði þverpólitískur þingmannahópur að pússa til þessar tillögur og gera þær að því sem þær eru í dag, efnahagslegir fyrirvarar við lánasamninga, sem eru fordæmalausir að mínu viti í heiminum og munu örugglega, þegar þeir ná fram að ganga, verða leiðarljós annarra þjóða í svona samningum. Þeir eru það merkilegir.

Síðast en ekki síst þarf að minnast á 8. gr. breytingartillagnanna um endurheimtur og innstæður en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin skal þegar í stað grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana sem þarf til að endurheimta það fé sem safnaðist inn á Icesave-reikningana. Í þeim tilgangi skal ríkisstjórnin fyrir 15. október 2009 hafa frumkvæði að samstarfi við þar til bæra aðila, m.a. yfirvöld í Bretlandi, Hollandi og Evrópusambandinu, og óska aðstoðar þeirra við að rekja hvert innstæðurnar af Icesave-reikningunum voru fluttar. Ríkisstjórnin skal fyrir árslok 2009 semja áætlun um hvernig reynt verður að endurheimta það fé sem kann að finnast. Í því skyni að lágmarka ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum skal ríkisstjórnin einnig gera ráðstafanir, í samráði við þar til bæra aðila, til þess að þeir sem kunna að bera fjárhagsábyrgð á þeim skuldbindingum sem stofnast hafa vegna Icesave-reikninganna verði látnir bera það tjón.“

Það er sem sagt skilyrði að ríkisstjórnin finni hvað varð um þessa peninga, hvort hægt sé að endurheimta þá, semja áætlun um hvernig það verði gert. Sé það ekki hægt verði skaðvaldarnir látnir borga skaðann með einum eða öðrum hætti. Það er gríðarlega mikilvægt skref í að brúa þá gjá sem myndast hefur milli þings og þjóðar í þessu máli, til að gera þjóðina að einhverju leyti sáttari við það sem gerst hefur.

Það væri óskandi að mínu mati að meiri hluti og minni hluti á þinginu í dag og á þinginu sem verður í framtíðinni að nái saman um fleiri mál. Það hefur sýnt sig að það eru rök fyrir málum báðum megin borðsins og ef hægt er að ná samkomulagi um þau verði niðurstaðan einfaldlega betri. Ég ætla mönnum ekki að fara að berja sér hér á brjóst og básúna það út hvað menn eru miklir og góðir vinir. Það er einfaldlega spurning um að fá betri niðurstöðu í mál fyrir þjóðina í heild. Það skiptir máli.

Frú forseti. Við erum núna að stíga fyrstu skrefin þar sem verið er að gera upp vont og spillt viðskiptalíf, vont og spillt stjórnkerfi, við stjórnsýslu sem er afspyrnuléleg og við stjórnmál sem hafa verið afspyrnuléleg. Hér þarf að endurskipuleggja mikið, það þarf að taka stjórnsýsluna og hrista upp í henni, það þarf að fara í hana og endurraða í þrjár æðstu stöður í allri stjórnsýslunni. Það þarf að fara inn og breyta með hvaða hætti skipað er í embætti héraðsdómara, það þarf að breyta með hvaða hætti skipað er í stöðu hæstaréttardómara. Ég lít svo á að breytingarnar við ríkisábyrgð í Icesave-málinu séu fyrsta skrefið í þeirri endurskipulagningu sem fram undan er. Hún mun taka langan tíma. Hún mun taka jafnvel einar eða tvennar kosningar í viðbót en hún mun fara fram. Alla vega munum við í Borgarahreyfingunni sjá til þess eftir mætti að sú endurskipulagning muni fara fram. Við erum á þingi til að ná fram gagngerum skipulagsbreytingum á stjórnsýslu, stjórnkerfi og stjórnmálum. Við erum á þingi til að knýja fram þessar breytingar eins skjótt og auðið er og við erum á þingi til að hætta svo á þingi þegar því er lokið. Við höfum ekki áhuga á að vera í stjórnmálum til framtíðar. Við höfum áhuga á því að gera umhverfi stjórnmálanna á Íslandi lýðræðislegra og bærilegra fyrir almenning og gera stjórnsýsluna þannig að hún vinni fyrir almenning á landinu en ekki fyrir framkvæmdarvaldið og gegn almenningi. Það, frú forseti, er fólgið í þessum breytingartillögum, þeirri vinnu og þeim aðferðum sem notaðar hafa verið í þessu máli.

Ég lýsi yfir eindregnum stuðningi við allar þessar breytingartillögur. Ég er stoltur af því að hafa getað tekið þátt í að vinna þær. Ég er ánægður með hvað Sjálfstæðisflokkurinn lagði sig fram um að ná fram ábyrgum og skynsamlegum breytingartillögum í þessu máli. Að mínu viti er það líka fyrsta skref þess stóra og mikilvæga stjórnmálaflokks sem hann stígur í átt inn í breyttan heim og það er ekki síst mikilvægt vegna þess að það er einmitt til hans sem rekja má svo mikið af þeim vandræðum sem við stöndum frammi fyrir núna þannig að það er vel við hæfi og ég fagna því með hvaða hætti Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið að þessu máli.

Ég hef ekki meira um þetta mál að segja, frú forseti, á þessu stigi. Ég vona að þessar breytingartillögur fari í gegn með miklum meiri hluta. Þingið og þjóðin eiga það skilið.