137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:21]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvað hæstv. ráðherra á við varðandi samninganefndina. Ég hélt að menn myndu hvernig hlutirnir gerðust hér eftir að ný ríkisstjórn tók við, allnokkrir embættismenn í Stjórnarráðinu voru teknir og settir í kæli. Þeir hafa síðan komið til nýrra starfa annars staðar. Þetta voru menn sem höfðu starfað með forsætisráðherrum úr fjölmörgum flokkum í áratugi en voru allt í einu ekki nógu góðir og ríkisstjórnin vildi setja sína eigin menn í þeirra stað. Einhverjir þeirra rötuðu inn í Icesave-samninganefndina, við munum líka eftir því að t.d. Indriði H. Þorláksson kom þangað inn. Er virkilega verið að reyna að halda því fram hér að ekki hafi verið vilji hjá ríkisstjórninni til að gera mannabreytingar á nefndinni? Hvers vegna voru ekki þeir einstaklingar sem teknir voru úr Stjórnarráðinu og þar með úr samninganefndinni einfaldlega látnir sitja þar áfram? Ég hef þá algerlega misskilið áherslur ríkisstjórnarinnar í þessu máli og ég kannast ekki við að einhver sendiherra á vegum ríkisins hafi verið að vinna í samninganefndinni og að honum hafi verið skipt út fyrir þann sem síðan tók við og leiddi nefndarstarfið.

Menn geta ekki komist hjá þeirri staðreynd með svona söguskýringum að sú ríkisstjórn sem þá var nýtekin við, í byrjun febrúar — og Vinstri grænir sem komu inn í ríkisstjórn höfðu haft uppi gríðarlega stór orð um hvernig farið hefði verið með hagsmuni Íslendinga í þessu máli — ætlaði að eigna sér niðurstöðuna með því að gera breytingar á samninganefndinni. Það fer ekki fram hjá nokkrum einasta manni sem skoðar atburðarásina og hvaða orð féllu á þessum tíma.