137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Icesave-málið sem komið er til lokaumræðu er ekki aðeins eitt stærsta mál sem Alþingi Íslendinga hefur þurft að ræða heldur um leið eitt mesta hneykslismál, hugsanlega mesta hneykslið sem við höfum horft upp á í íslenskum stjórnmálum. Ástæðan er sú að í þessu máli brugðust stjórnvöld þeirri grundvallarskyldu stjórnvalda í hvaða landi sem er í heiminum að verja þjóð sína. Íslensk stjórnvöld hafa í þessu máli ekki varið íslensku þjóðina. Þvert á móti hafa þau varið mjög hart málstað andstæðinga okkar í þessu máli og beitt til þess brögðum sem ég held að sagan muni dæma sem algerlega óásættanleg.

Saga þessa máls í þinginu er saga blekkinga og undanbragða. Þingmenn hafa þurft að hafa gríðarlega mikið fyrir því að fá grundvallarupplýsingar um málið. Það stóð ekki einu sinni til að þingmenn fengju að sjá þá samninga sem þetta snýst allt saman um. Reyndar var opnað á þann möguleika að þingmenn gætu fengið að skoða samningana í lokuðu herbergi einir og sér en það var þá ljóst að aldrei ætti að birta þá opinberlega. Það var ekki fyrr en samningunum var lekið í fjölmiðla að stjórnvöld sáu ekki annan kost en birta þá og síðan þá hefur þurft að margbiðja um að fá grundvallarupplýsingar í málinu. Þegar upplýsingar hafa verið veittar hafa þær oft ekki staðist og raunar hefur ekkert staðist af því sem sagt var um þetta mál í upphafi. Ekki eitt einasta af þeim atriðum sem stjórnvöld nefndu sem rökstuðning fyrir því að þetta væri ásættanlegur samningur í upphafi hefur staðist þegar á hólminn var komið.

Ástæðurnar fyrir því eru líklega fyrst og fremst tvær: Annars vegar sú að ríkisstjórnin lagði strax sjálfa sig undir í þessu máli og var þannig komin í skotgrafirnar, gat ekki léð máls á neinu öðru en upphaflegu uppleggi í þessu máli. Hitt er það að stjórnvöld, ríkisstjórnin virtist einfaldlega ekki vita hvað hún var með í höndunum, hafði ekki kynnt sér málið, eins og kom í ljós aftur og aftur, m.a. kom í ljós að ráðherrar í ríkisstjórninni gerðu sér ekki grein fyrir hvernig greitt yrði út úr þrotabúi Landsbankans og munaði þar hundruðum milljarða kr. Menn höfðu ekki hugmynd um hvort það skeikaði 300 milljörðum til eða frá.

Þrátt fyrir að hafa ekki séð samninginn voru margir stjórnarliðar og raunar ríkisstjórnin sjálf tilbúin að tala fyrir honum, tilbúin til að segja að þetta væri það eina í stöðunni. Við ættum í raun ekkert val annað en að samþykkja þennan samning sem var sagður góður en menn hafa svo ekki treyst sér lengur til að reyna að segja góðan, telja nú nauðsynlegan.

Það er búið að reyna mikið að gera endurbætur á þessum samningi. Það er í sjálfu sér mjög undarleg nálgun þegar menn fá í hendur plögg eins og þessir Icesave-samningar eru, að menn skuli fá í stað þess að segja einfaldlega: Þetta er ekki hægt fyrir þingið. Þetta er ekki í samræmi við það umboð sem Alþingi veitti og raunar eru þegar búin að virkjast endurskoðunarákvæði samninganna sjálfra. Í stað þess að segja þetta, vísa málinu til baka, er reynt að stagbæta samningana. Það var vissulega betra en ekki neitt, það var vissulega betra en að samningarnir færu í gegn óbreyttir og þess vegna hefur Framsóknarflokkurinn tekið mikinn þátt í þeirri vinnu og sú barátta hefur þrátt fyrir allt orðið til þess að málið lítur miklu skár út en stefndi í. En hins vegar var lagt í þá baráttu af hálfu þeirra sem tóku þátt í henni sem voru fulltrúar úr öllum flokkum, nema Samfylkingu, lagt upp með að fyrirvararnir væru í rauninni leið til að segja: Þetta er ekki ásættanlegt og þetta er það sem er að. Nú er allt í einu umræðan orðin sú að þessir fyrirvarar eigi að vera ásættanlegir. Við viljum fá staðfestingu á því að þeir séu ásættanlegir, segir ríkisstjórnin. Túlkanirnar er engu að síður alveg í hvor í sína áttina. Fulltrúar úr Sjálfstæðisflokki hafa lýst því að fyrirvararnir felli í raun samninginn, eða gerðu það a.m.k. á tímabili. Fulltrúar frá ríkisstjórninni, ráðherrar, segja að þetta rúmist innan samningsins. Ljóst má vera að hvort tveggja getur ekki verið rétt. En ef nú er ljóst að við viljum fá samþykki, við viljum að Bretar og Hollendingar segi: Þetta er í lagi, erum við í raun að leggja fram nýtt tilboð. Það er í eðli málsins, þá verðum við að spyrja okkur: Er þetta gagntilboð ásættanlegt af okkar hálfu? Er gengið nógu langt? Er það sem við leggjum fram sem tilboð, það sem við ætlumst til að fá samþykki við, jákvætt svar frá Bretum og Hollendingum, er það það sem við viljum eða erum við að gefast upp? Er þetta það sem við teljum okkur geta náð og ekki meira? Þetta eru spurningar sem ég hefði viljað fá svör við í dag en ráðherrar í ríkisstjórninni gefa sér lítinn tíma til að taka þátt í umræðu um þetta stærsta mál hugsanlega í sögu Alþingis og ég held að það sé ekki einn einasti stjórnarþingmaður á mælendaskrá. En þetta er grundvallaratriðið.

Ef ríkisstjórnin er að falast eftir því að Bretar og Hollendingar fallist á tillöguna er verið að gera tilboð. Þá er spurningin þessi: Er þetta tilboð ásættanlegt? Það er það ekki að mínu mati. Það er það ekki að mati fulltrúa Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd, hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar og ég tel að óhætt sé að segja að framsóknarmenn almennt og ég geri ráð fyrir stærstur hluti þjóðarinnar telji þetta ekki ásættanlegt tilboð, sérstaklega í ljósi þess að okkur Íslendingum ber raunverulega ekki skylda til að greiða þessar gríðarlega háu upphæðir. Okkur ber ekki skylda til að skrifa upp á nærri 800 milljarða kr. skuldabréf í erlendri mynt. Ef við erum sammála um það, sem ég held reyndar að flestir séu að verða, hvers vegna gerum við þá tilboð á móti sem við teljum í raun ekki ásættanlegt? Hvernig stendur á því að þrátt fyrir að í ljós hafi komið aftur og aftur að í hvert skipti sem unnið er meira í málinu og það skoðað betur finnast nýir gallar og hlutir sem allir verða síðan sammála um að þurfi að leiðrétta, að málið er iðulega rifið út úr nefndinni án þess að fá þar fullnægjandi umræðu? Ég taldi að samið hefði verið um það fyrir nokkrum dögum að þegar málið færi inn í nefnd fyrir síðustu umræðu fengi það allan tíma sem á þyrfti að halda. En hvað er svo gert? Eina ferðina enn er málið rifið út án þess að einn einasti maður með menntun í enskum lögum hafi lesið það yfir. Það er ekki einn einasti — ég er ekki bara að tala um sérfræðinga, ég er bara að tala um einhvern sem er með menntun í enskum lögum, þeim lögum sem gilda um samninginn, þeim lögum sem verður stuðst við, rísi ágreiningur. Það hefur ekki einn einasti maður með menntun í enskum lögum lesið þetta yfir fyrir Alþingi þrátt fyrir að komið hafi ábendingar héðan og þaðan aftur og aftur frá framtakssömum borgurum úti í bæ, jafnvel í útlöndum, um að það sé kannski ekki allt með felldu. Þá ætlar þingið að setja þetta mál í gegn án þess að hafa fengið ekki bara bestu sérfræðinga heims, sem svo að sjálfsögðu ættu að fá sér til aðstoðar í þessu máli, heldur neinn með nægilega þekkingu til að geta yfir höfuð prófarkalesið málið.

Sú hefur reyndar verið raunin allt frá upphafi. Það er óskiljanlegt að í samningaviðræðum þar sem svona miklir hagsmunir eru undir skuli ekki hafa verið leitað til einhverra þeirra fjölmörgu sérfræðinga víða um heim sem boðist hafa til að aðstoða Íslendinga í þeim kröggum sem þjóðin er nú í. Meira að segja Nóbelsverðlaunahafar í hagfræði hafa boðið Íslendingum aðstoð sína. Það eru allir tilbúnir og áhugasamir um að hjálpa Íslandi í þeirri sérstöku stöðu sem landið er í. Nei, ríkisstjórnin vildi hafa þetta mál út af fyrir sig, láta sína einkavini sjá um þetta, ekki leita eftir utanaðkomandi áliti nema að einhverju óverulegu leyti og að því leyti sem það var gert var því stungið undir stól.

Hvernig þetta mál hefur verið unnið er ríkisstjórninni til háborinnar skammar en þó er rétt að geta þess að einn ráðherra, hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmundur Jónasson, og nokkrir Íslandsvinir í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði skera sig þar úr og hafa haft töluvert um þetta að segja ásamt Framsóknarflokknum og öðrum sem hafa tekið fast á móti. Það hefur þurft töluverða baráttu til því að það er mikið búið að reyna til að keyra þetta mál í gegn og þar hefur ýmsum brögðum verið beitt eins og ég held að sé fullt tilefni til að fjalla nánar um síðar. Samningsstaða Íslendinga í þessu máli var nefnilega sterk. En fulltrúar Íslands, málsvarar Íslands, hafa skipulega kastað frá sér öllum vörnum. Fjármálaráðherra Frakklands og núna fyrir ekki svo löngu síðan fjármálaráðherra Hollands hafa lýst því yfir að ríkisábyrgð eigi ekki við í kerfishruni eins og Íslendingar hafa upplifað. Þessu til viðbótar er margbúið að sýna fram á hina ýmsu lagalegu galla á málatilbúnaðinum en hversu oft sem bent er á ágallana hefur það engu breytt um það að ríkisstjórnin forherðist í því að þessa samninga verði að keyra í gegn. Hún vill enga hjálp. Hún vill auðvitað allra síst hjálp frá stjórnarandstöðunni en hún vill ekki heldur heyra í málsvörum Íslendinga í útlöndum því að þeim hefur smátt og smátt farið fjölgandi eftir því sem málstaður Íslendinga hefur verið kynntur en það hefur ríkisstjórn Íslands algerlega látið undir höfuð leggjast. Reynslan er sögð sú að þegar menn hafa byrjað að kynna málstaðinn kviknar ljós, þá átta menn sig á því um allan heim að þetta er allt öðruvísi en leit út í upphafi. Það er mikil synd og mikill skaði að íslensk stjórnvöld skuli ekki fyrr og raunar ekki yfir höfuð hafa gripið til varna. Sérstaklega á það við núna einmitt þessa dagana þegar andrúmsloftið er að breytast mjög mikið, sérstaklega í Evrópu, varðandi það hvernig menn meta þá efnahagskrísu sem heimurinn hefur gengið í gegnum en ekki síst hvernig þeir meta stöðu Íslands og þetta mál. Nú eru leiðarahöfundar erlendra blaða farnir að koma okkur til varnar, erlendir sérfræðingar taka upp á því hjá sjálfum sér að skrifa Íslendingum til varnar en þessa hjálp vilja íslensk stjórnvöld helst ekki sjá vegna þess að fyrir þeim snýst þetta eingöngu um það að hafa rétt fyrir sér varðandi að samningurinn eigi að fara í gegn. Ríkisstjórnin er tilbúin til að leggja þessar gríðarlegu byrðar á íslensku þjóðina til þess eins að geta sagt: Við náðum okkar í gegn. Svona eiga stjórnvöld ekki að starfa, allra síst á tímum eins og við upplifum núna.

Hverjar verða svo afleiðingarnar af þessu ef þetta næst allt saman í gegn? Þá þarf ríkisstjórnin væntanlega að finna sér nýtt mál, nýja gulrót til þess að benda á að nauðsynlegt sé að ná til að hægt sé að gera alla hlutina sem hún vill svo gjarnan. Nokkur mál hafa komið til sögunnar, Evrópusambandið, seðlabankastjórinn og fleira. Alltaf er einhver hindrun sem kemur í veg fyrir að ríkisstjórnin geti gert það sem hún er kjörin til svo nú mun hún væntanlega þurfa að finna sér nýja fyrirstöðu, nýja afsökun fyrir því að hún sinni ekki hlutverki sínu sem skyldi. En það sem verra er, með þessu kann að vera að af stað fari ferli sem er ekki endilega gæfuríkt, verður ekki gæfuríkt fyrir þjóðina, þ.e. aukin lántaka án þess að menn hafi almennilega gert sér grein fyrir því hvernig nota eigi lánin. Aukin lántaka þýðir aukin skuldsetning. Við erum stödd í miðri skuldakreppu. Það er reyndar langt síðan hún hófst. Bankarnir töldu að skuldakreppuna mætti leysa með aukinni skuldsetningu. Sú tilraun var gerð. Afleiðingarnar eru öllum ljósar. Nú er ríkisstjórn Íslands að reyna slíkt hið sama. Það er sögð vera meginástæðan fyrir því að við verðum að samþykkja Icesave-samningana fyrir utan einhverja vinsældakeppni, það er að við verðum að fá meiri lán. Við verðum að skuldsetja okkur aðeins meira, aðeins lengur, vegna þess að ef við fáum aðeins meiri frest þótt við skuldsetjum okkur miklu meira reddast þetta kannski.

Nei, ég held að það sé nóg komið af þessu viðhorfi, því viðhorfi að skuldaaukning geti bjargað okkur. Ég held að við þurfum að fara að hugsa hlutina upp á nýtt, breyta um kúrs og vinna að því að ekki aðeins ríkissjóður og þar með skattgreiðendur, þjóðin í heild, taki ekki á sig óbærilega skuldaklafa heldur líka að snúa þróuninni við hjá heimilunum og fyrirtækjunum í landinu sem ríkisstjórnin gerir sér sem betur fer grein fyrir að standa ekki undir skuldabyrðinni. Nú ætti að vera nýtt upphaf með nýrri hugsun, ekki um aukna skuldabyrði, ekki um gömlu aðferðir bankanna við að skuldsetja sig út úr vandanum, heldur þvert á móti að við gerum okkur grein fyrir því að skuldsetning landsins, heimilanna, fyrirtækjanna og ríkissjóðs er orðin meiri en við stöndum undir. Við þurfum að snúa þeirri þróun við, við þurfum að lækka skuldirnar því að þannig getur framtíð Íslands orðið björt.