137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum sammála um að það skiptir miklu máli úr því sem komið er að settir séu fyrirvarar við þetta afar slæma frumvarp, svo ekki sé sterkar til orða tekið.

Það sem mig langar að spyrja um og ítreka er: Eitt sinn voru þingmaðurinn og flokkur hans í fjárlaganefnd á þeirri skoðun að hafa fyrirvarana sterkari, skýrari, og það myndaðist í rauninni meiri hluti um það án Samfylkingarinnar. Ég held að það liggi alveg fyrir að þeir fyrirvarar sem meiri hlutinn setur hér eru ekki nægilega skýrir vegna þess að þó að þingmaðurinn hv. Ásbjörn Óttarsson telji þá í rauninni bera með sér nýtt gagntilboð hefur komið fram hér í umræðunni að samfylkingarmenn telji einmitt hið gagnstæða.

Þess vegna spyr ég aftur: Er þingmaðurinn til í að styrkja fyrirvarana enn frekar? Við erum ekki að tala um neinar stórkostlegar breytingar, við erum bara að tala í þá átt að þingmaðurinn ásamt meðlimum Sjálfstæðisflokksins og Borgaraheyfingarinnar og hluta af Vinstri grænum voru eitt sinn til í að samþykkja bæði efnahagslegu og lagalegu fyrirvarana.

Ég ítreka aftur spurningu mína: Hefði þingmaðurinn ekki viljað sjá einhvers konar fyrirvara sem tryggðu það að einhver léti reyna á hryðjuverkalögin, hugsanlega með skuldajöfnun, eins og bent hefur verið á? Hefði hann ekki verið til í að styðja þannig fyrirvara eða ætlar þingmaðurinn einungis að samþykkja þá veiku fyrirvara sem meiri hlutinn hefur lagt fram?