137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þar sem hv. þingmaður kemur inn á sterkari fyrirvara er það alveg skýrt af okkar hálfu og við sögðum það í fjárlaganefnd að þó svo að við styddum þessa breytingartillögu áskildum við okkur allan rétt til að styðja frekari breytingartillögur eða flytja frekari breytingartillögur við málið, þannig að það komi alveg skýrt fram og hv. þingmaður veit um það.

Hann kemur líka inn á skuldajöfnunarleiðina, það kemur mjög skýrt fram í nefndaráliti okkar nokkuð sem okkur finnst merkilegt. Hv. þingmaður vitnaði hér í tvo hæstaréttarlögmenn, Þorstein og Þórhall, sem komu á fund fjárlaganefndar og bentu okkur á að samið er frá því í 8. gr. frumvarpsins, í raun og veru er fallið frá því að íslenska ríkið geti sótt skaðabætur fyrir dagsetningu undirritunar samningsins. Það kemur ítarlega fram í nefndaráliti okkar hvað okkur finnst það vera forkastanleg vinnubrögð að gera það með þeim hætti, að menn semji það frá sér. Eins og hv. þingmaður bendir á er í raun og veru verið að semja það frá sér að menn geti hugsanlega sótt einhverjar skaðabætur vegna beitingar hryðjuverkalaganna. Þá, eins og líka er bent á gagnvart 9. gr. í samningnum, kemur fram að menn hafa fyrirgert rétti sínum til þess að nota það til skuldajöfnunar. Við deilum þeirri skoðun, ég og hv. þingmaður, að hryðjuverkalögin hljóti að hafa haft skaðleg áhrif á eignasafn Landsbankans og alla þá starfsemi sem þar var þannig að það er ekki æskilegt að það verði gert með þessum hætti. Það kemur skýrt fram í nefndaráliti okkar þar sem við lýsum yfir miklum vonbrigðum með þessi vinnubrögðum samninganefndarinnar og að stjórn tryggingarsjóðsins skuli samþykkja það.