137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:44]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var dálítið sérkennilegt að hv. þingmaður skyldi segja að það væri einkennilegt að Sjálfstæðisflokkurinn stæði að þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir, þó að það liggi fyrir að talsmaður flokksins í fjárlaganefnd hafi m.a. sagt að þessar breytingartillögur væru allar til bóta sem og þessi fyrirvari og skilmálar sem væri verið að setja. Stjórnmálaflokkur sem tekur sig alvarlega og vill vinna málin faglega og efnislega stendur að breytingartillögum sem hann telur til bóta og það á við um okkur.

Varðandi það hvort Bretar og Hollendingar setji fyrirvara við þetta mál, það er eitthvað sem ég ætla mér ekkert að tjá mig um. Kjarni málsins er þessi: Alþingi hefur talað, Alþingi er að tala, Alþingi er að láta skoðun sína í ljósi og er að segja við umheiminn, við Hollendinga og Breta: Við samþykkjum ekki þá afarkosti sem samningurinn og ríkisábyrgðin sem af henni leiddi höfðu í för með sér og þess vegna erum við núna að setja fyrirvara og skilmála til þess að bæta stöðu okkar sem þjóðar og sem þjóðfélags.