137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:47]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum alveg þá sammála um það, við hv. þingmaður, að þessir fyrirvarar og skilmálar sem við erum að setja inn í málið með þeim breytingartillögum sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur kynnt og reyndar þeim breytingartillögum sem þegar hafa verið samþykktar muni styrkja þetta mál.

Hv. þingmaður spurði mig að því hvort ég telji að samningurinn verði með því viðunandi. Ég ætla svo sem ekkert að svara því afdráttarlaust að öðru leyti en því að segja að ég tel með þessum hætti verði samningurinn betri en sá samningur sem fyrir okkur var lagður og það frumvarp sem fyrir okkur var lagt. Auðvitað hefði ég kosið að málsmeðferðin hefði orðið önnur og er sannfærður um að niðurstaðan hefði líka orðið önnur ef annarri málsmeðferð hefði verið fylgt. Þetta er hins vegar hinn pólitíski veruleiki sem við stöndum frammi fyrir núna varðandi þetta mál. Ríkisstjórnin lagði fram þetta mál, vildi knýja það til niðurstöðu, og ég er alveg sannfærður um að ef ekki hefði náðst samstarf milli stjórnarandstöðunnar og hluta stjórnarliðsins hefðum við ekki fengið þá niðurstöðu sem hér er um að ræða.

Ég er einfaldlega að segja að ég tel að við getum ekki með góðu móti stillt málinu upp þannig að annaðhvort sé það þetta eða eitthvað allt annað miklu betra heldur verðum við líka að velta því fyrir okkur hvort sá möguleiki geti ekki verið í stöðunni að það sé annaðhvort þetta eða eitthvað allt annað miklu verra, vegna þess að það er alveg ljóst mál að ríkisstjórnarhópurinn hefði þá fengið ný tök á málinu til þess að leiða það mál áfram.