137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst mál að ef fyrirvararnir ekki öðlast gildi verður ríkisábyrgðin ekki veitt og ríkisábyrgðin er auðvitað forsendan fyrir því að þessir samningar geti gengið fram. Það er því alveg ljóst mál að þó að þetta séu tvö aðskilin mál, má segja í sjálfu sér, eru þessi sterku tengsl á milli sem gera það að verkum að án annars er ekki hitt til.

Það er þessi spurning: Hvenær getur þetta mál orðið viðunandi? Sjálfsagt verður það aldrei viðunandi vegna þess að það er ekki viðunandi í sjálfu sér að þurfa að axla þessa ábyrgð. En með nákvæmlega sama hætti og hv. þingmaður spurði mig vakir sú spurning líka núna í þessari umræðu hvort þeir fyrirvarar sem þingmenn Framsóknarflokksins flytja við þetta mál mundu gera það mál og samningana þar með viðunandi að þeirra mati.