137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:50]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágætisræðu og einnig fyrir samstarfið í fjárlaganefnd þó að það hafi verið með stysta móti.

Ég get þess í framhaldsáliti 2. minni hluta, sem ég skrifa undir, að ég hafi tekið undir óskir eins þingmanns, sem er sá maður sem ég er að spyrja núna, um að fá fram upplýsingar um hvaða hætti ríkisstjórnin hafi verið í samskiptum við Hollendinga og Breta. Þingmaðurinn spurði hvort hægt væri að fá afrit af þeim samskiptum, með hvaða hætti þau hefðu farið fram, eða þá minnisblöð um þá fundi sem haldnir hefðu verið, og ef minnisblöðin væru ekki til hvort það væri möguleiki að gera þau.

Ég tók undir þessa beiðni og síðan kom eitthvað til baka sem svaraði á engan hátt spurningum þingmannsins. En mér leikur forvitni á að spyrja þingmanninn: Þegar sá sem hér stendur óskaði eftir því að Stefán Már Stefánsson lagaprófessor og fleiri aðilar kæmu á fundi nefndarinnar til þess að upplýsa það nánar, vegna þess að þingmaðurinn nefndi í ræðunni að nefndin hefði gefið sér hlægilega lítinn tíma, af hverju tók Sjálfstæðisflokkurinn ekki undir þessar beiðnir Framsóknarflokksins, af hverju þagði hann þunnu hljóði? Til er bókun þar sem kemur skýrt fram að allir í fjárlaganefnd, þar með taldir sjálfstæðismenn, höfnuðu þessari (Forseti hringir.) beiðni Framsóknarflokksins.