137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af því sem hv. þingmaður sagði um aðkomu sérfræðinga og prófessorsins Stefáns Más Stefánssonar vil ég ítreka það að við sjálfstæðismenn lögðumst ekki gegn því og það var algjörlega á ábyrgð og forustu meiri hlutans í fjárlaganefnd að ekki var orðið við því.

Varðandi það hvort við hefðum átt og ættum ekki að leita dómsniðurstöðu í þessu máli hef ég þegar rakið að það varð um það niðurstaða hér á Alþingi í desember sl. að leita eftir pólitískri niðurstöðu í málið og fyrir því voru flutt ýmis rök sem ég hef þegar endurtekið að nokkru leyti. Sú leið var farin. Að vísu tókst illa til vegna þess að illa var staðið að málinu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við höfum m.a. í þeim breytingartillögum sem fyrir liggja haldið því til haga að við höfum ekki gefið þann rétt frá okkur að fara dómstólaleiðina og það væri auðvitað fráleitt af hálfu okkar sem fullvalda þjóðar og stjórnvalda fullvalda þjóðar að gefa slíkan rétt frá sér.