137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil nú koma ríkisstjórninni og ráðherrunum nokkuð til varnar. Ég hef alveg á því skilning að hæstv. ráðherrar eins og hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra skuli ekki vera viðstaddir þessa umræðu hérna. Þeir finna ekki mikinn skyldleika við þetta mál sem við ræðum hérna. Þetta er auðvitað gjörbreytt mál frá því þegar þeir lögðu það fram.

Ég vil að vísu halda því til haga sem ég nefndi í ræðu minni áðan að það eru ákveðnar málfræðilegar samtengingar sem enn þá vottar fyrir úr upphaflegu frumvarpi en að öðru leyti er þetta mál svo gjörólíkt því sem þeir sjálfir fluttu. Það er því alveg augljóst að hæstv. ráðherrar og stjórnarliðarnir í heild telja auðvitað að málið sé þeim svo gjörsamlega óskylt að þeim komi það ekki við og sýna síðan þinginu þá lítilsvirðingu sem við sjáum hér í dag að taka lítinn þátt í þessari umræðu, helst engan, og hlusta ekki á þær umræður sem hér fara fram.