137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:21]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttir kærlega fyrir ræðu hennar. Ég verð að segja það, líkt og fyrri þingmenn hér í andsvörum, að ég er sammála þingmanninum. Ég verð samt að viðurkenna að ég er ekki alveg viss um hver verður hennar endanlega afstaða í þessu máli, af því að nú hefur komið fram m.a. í þessu nefndaráliti og hjá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í nefndinni að þeir telji að með þeim fyrirvörum sem þegar er búið að leggja fram af meiri hlutanum, sé búið að gjörbreyta eðli málsins og gera það að verkum að það sé vel þess virði að styðja málið.

Mér fyndist því mjög áhugavert að heyra frá þingmanninum hvort hún sé sammála þessu eða hvort hún telji nauðsynlegt að gera enn meiri breytingar hvað varðar fyrirvarana og þá samþykkja hugsanlega breytingartillögur okkar framsóknarmanna. Ég mundi sérstaklega vilja vekja athygli á þeim fyrirvörum sem við leggjum fram sem varða hugsanlegan skaða sem kemur í ljós af aðgerðum breskra og hollenskra stjórnvalda eða hina svokölluðu skuldajöfnun.

Síðan hefði ég mikinn áhuga á að heyra hvort þingmaðurinn er tilbúin til þess að samþykkja ríkisábyrgðina, að greiða atkvæði með samningnum í endanlegri afgreiðslu málsins. Eins og ég skildi ræðu hennar og síðan svör hennar í andsvörunum hljómar það meira eins og hún líti svo á að þetta sé einhvers konar samningstilboð til Breta og Hollendinga. En þetta er náttúrlega endanleg afgreiðsla frá þinginu og það eru komnir varnaglar við þá fyrirvara sem við leggjum upp með. Ég sé heldur ekki að það sé neitt búið að svara því hvort við getum síðan í framhaldinu, ef þetta er einhvers konar samningstilboð, staðið þá frammi fyrir því að Bretar og Hollendingar mundu fara að setja fyrirvara við sína afgreiðslu, fyrirvara við okkar fyrirvara um fyrirvara. (Forseti hringir.) Það væri mjög áhugavert að heyra svör þingmannsins við þessu.