137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:23]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi lokaorð hv. þingmanns minna mig á — ég held að það hafi verið í andsvari við 2. umr. þegar við vorum að tala um athugasemdir og athugasemdir líka við varnagla við fyrirvara, þetta verður stundum svolítið flókið.

Bara til að afstaða mín liggi algjörlega ljós fyrir: Ríkisstjórnin ber ábyrgð á samningnum. Við erum búin að vinna þessar breytingartillögur og eins og komið hefur fram í umræðunum eru allar þær breytingartillögur sem við sjálfstæðismenn höfum stutt í rauninni komnar frá okkur og unnar í góðu samstarfi innan nefndarinnar. Allt það sem gert hefur að verkum að málið hefur batnað hefur verið unnið í góðu samstarfi en mikið til er það að frumkvæði okkar sjálfstæðismanna, þannig að þær breytingartillögur mun ég að sjálfsögðu styðja.

Afstaða mín til málsins sjálfs kemur hins vegar í ljós við atkvæðagreiðsluna á morgun, en það er rétt sem hv. þingmaður sagði, að ég lít á þetta sem gagntilboð. Ég lít þannig á að með þessari litlu ríkisábyrgð á stórum samningi séum við að gera Bretum og Hollendingum gagntilboð. Og vegna þess að við höfum gert þá breytingartillögu núna að Bretar og Hollendingar verða að samþykkja þessa fyrirvara áður en ríkisábyrgðin verður virk erum við svo sannarlega að gera þeim þetta gagntilboð. Muni þeir fella það, muni þeir ekki samþykkja það, erum við komin í aðra stöðu og þurfum að semja upp á nýtt.

Varðandi það hvort þeir geti gert fyrirvara við okkar fyrirvara mundi ég líta á það sem annað gagntilboð og þá yrði ríkisábyrgðin okkar ekki virk samkvæmt þeim fyrirvörum sem við höfum sett. Ég ætla að vona að einhver geti fylgst með.