137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nákvæmlega svona: Ríkisstjórnin skrifar undir samning og kemur með hann í þingið. Valkostirnir eru þessir: Ætlar stjórnarandstaðan að reyna að hafa áhrif á ríkisábyrgðina til þess að bjarga því sem bjargað verður eða ætlar hún ekki að gera það?

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki í meiri hluta hér á þingi, ef það hefur farið fram hjá einhverjum. Sjálfstæðisflokkurinn stýrir ekki þessu þingi, hann stýrir ekki þessari ríkisstjórn. (EyH: En þið styðjið frumvarpið.) Það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert er að koma með breytingar m.a. eftir að vera búinn að hlusta á þá sérfræðinga sem hv. þingmaður vitnaði í. (Gripið fram í.) Það er kjarni málsins, hv. þingmaður. (Gripið fram í.)

Samningurinn er hins vegar algjörlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og því verður aldrei breytt. Þingið gat breytt ríkisábyrgðinni, því frumvarpi, það gerðum við. (Forseti hringir.) Ég tel að enginn geti haldið öðru fram en að það hafi verið afskaplega skynsamlegt (Forseti hringir.) og stórslys ef það hefði ekki verið gert.