137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Margt af því sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni var rétt, sumu er ég ekki alveg algerlega sammála. Mér finnst t.d. að hv. þingmaður hafi gert fullmikið úr hlut þess sem hann kallar andspyrnuhreyfingu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og of lítið úr sínu eigin framlagi. Ég er þeirrar skoðunar að það sé alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, að ríkisstjórnin hafði ekki meiri hluta fyrir málinu eins og það var lagt fram og ég tel að stjórnarandstaðan eða sá hluti hennar sem stendur að þessum breytingartillögum hafi sýnt mikla ábyrgð og komið með mjög málefnalegum hætti að þessu máli. Ég tel að sú samstaða sem náðst hefur í þinginu geri það að verkum að staða Íslendinga í þessu máli er fyrir vikið töluvert miklu sterkari en hún hefði getað verið.

Ég tel raunar líka að það skipti máli þeir flokkar sem eru hér og styðja þetta ekki. Ég er t.d. þeirrar skoðunar að Framsóknarflokkurinn hafi líka með sínum hætti lagt þungt lóð á vogarskálina. Ég tel að hlustað hafi verið á ýmislegt sem Framsóknarflokkurinn hefur sett fram í þinginu alveg eins og þingið komst sameiginlega að ákveðinni niðurstöðu eftir að hafa hlýtt bæði á það sem hv. þingmaður kallar andspyrnuhreyfingu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en sömuleiðis þau ágætu ráð sem komu úr ranni hv. þingmanns.

Ég hef sömuleiðis sagt það áður að ég tel að það skipti máli að félagasamtök eins og Indefence hafa beitt sér í þessu máli og á síðustu dögum, fyrir utan það sem er að gerast hér, hugsa ég að ekkert hafi skipt jafnmiklu máli og útifundurinn sem Indefence-hópurinn stóð fyrir á sínum tíma fyrir utan Alþingishúsið vegna þess að það sýnir þeim sem við eigum í höggi við að það er mikil ólga meðal íslensku þjóðarinnar út af þessu máli. Þetta er vont mál, það hefur enginn dregið dul á það. Ég vil bara segja það hér til að hafa sagt það, (Gripið fram í.) ég tel að stjórnarandstaðan hafi sýnt ábyrgð og málefnalega festu í málflutningi sínum þótt ég sé ekki sammála öllu.