137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ósköp mikil huggulegheit og allir eru vinir og allt það. Ég skil þennan tón hjá hæstv. utanríkisráðherra og ég vil að mörgu leyti taka undir hann. (Gripið fram í.) Ég tek líka undir það að ráðherraræðið mætti minnka. Maður hefði haldið að það mundi gera það þegar allir þessir ráðherrar eru í ríkisstjórn sem hafa sérstaklega talað um að það ætti að gera. (Gripið fram í.) En ég spyr: Af hverju beitti hæstv. utanríkisráðherra sér ekki fyrir þverpólitískri samstöðu varðandi breytingar á stjórnarskránni? Þverpólitískri samstöðu varðandi t.d. að ná enn frekari sátt í umræðu um fiskveiðistjórnarkerfið eða varðandi ESB? Það er ekki þannig. Við vitum það alveg að menn voru teknir inn í hin ýmsu herbergi, Vinstri grænir og Samfylkingin, til að reyna að möndla því máli öllu í gegnum þingið. Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til að fylgja eftir þeim orðum sem hann talaði úr ræðustól áðan og hvetja til þess að náð verði meiri samstöðu um þessi stóru og mikilvægu mál því að næg eru verkefnin fram undan.

Ég vil ítreka að nú er heilt sumar liðið í tvö mál — tvö stór mál. Það dregur enginn úr því. En á móti kemur að það voru önnur stór mál sem hafa beðið og þau bíða enn. Við sjáum ekki neina vonarglætu hjá ríkisstjórninni, það kemur ekkert frá ríkisstjórninni sem varðar stöðu heimilanna, stöðu fyrirtækjanna. Þar verðum við að fá umræðu og þar verðum við að fá svör frá ríkisstjórninni. Enn er alltaf þetta sama svarleysi, frú forseti.