137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ósammála hæstv. utanríkisráðherra sem hefur útnefnt sjálfan sig talsmann ríkisstjórnarinnar í 3. umr. um að ekki hafi orðið gríðarlegar breytingar milli 2. og 3. umr. Ég vísa þar til breytingartillagna, liðar 1.b þar sem segir:

„Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá.“

Þetta er gríðarleg breyting, sérstaklega í ljósi þess að málflutningur ráðherra í ríkisstjórninni í 2. umr. og eftir 2. umr. gekk allur út á það að þær breytingar eða þeir fyrirvarar sem verið var að gera rúmuðust alveg innan samkomulagsins frá 5. júní. Því var ítrekað haldið fram að breytingarnar milli 1. og 2. umr. rúmuðust innan þess ramma. En hér er sagt berum orðum að kynna eigi fyrirvarana fyrir Bretum og Hollendingum og þeir fallist á þá. Annars sé engin ríkisábyrgð í málinu. Það er gríðarlega mikil breyting og það sést að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa hvorki tjáð sig opinberlega né í þinginu um þetta atriði. Ég hef ekki heyrt þá gera það. En kannski getur hæstv. utanríkisráðherra upplýst okkur um það hvernig ríkisstjórnin ætlar að fylgja þessu eftir vegna þess að það gat hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, auðvitað ekki gert þegar málið var borið undir hann fyrr í þessari umræðu. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að fylgja þessu eftir? Segjum ef málið verður afgreitt og staðfest á morgun, hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í framhaldinu? Ætlar hún að fara til Breta og Hollendinga og segja: Hér eru fyrirvarar okkar. Ætlið þið að skrifa undir? Eða hefur ríkisstjórnin einhverjar aðrar hugmyndir um viðbrögð við þessu máli?