137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það verður að halda því til haga að það var ekki ljóst á fyrri stigum málsins að svo væri eða það leiddi af sjálfu sér vegna þess að því var ítrekað haldið fram á opinberum vettvangi af hálfu ríkisstjórnarinnar að þeir fyrirvarar sem verið væri að gera milli 1. og 2. umr. rúmuðust innan samningsins. Hér er einfaldlega verið að tala um að samþykkja þurfi breytingu eða viðauka við samninginn.

Eins og ég rakti í ræðu minni áðan er alveg augljóst að samningarnir frá 5. júní gera ráð fyrir skilyrðislausri ríkisábyrgð en við í þinginu höfum hlaðið fyrirvörum og skilyrðum á þessa ríkisábyrgð. Meiri hluti fjárlaganefndar segir núna að það sé engin ríkisábyrgð nema Bretar og Hollendinga skrifi upp á alla þessa fyrirvara. Það er gerbreyting í mínum huga. Það er gerbreyting vegna þess að það er sett fram með skýrum og skilmerkilegum hætti að það þarf að tala aftur við Breta og Hollendinga, það þarf að fá samþykki þeirra fyrir þeim fyrirvörum sem Íslendingar hafa sett fram, annars er engin ríkisábyrgð, þá leiðir af sjálfu sér að það eru engir samningar.