137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Á nú tæpu ári hafa Íslendingar upplifað hvern ósigurinn á fætur öðrum. Eftir að hafa verið sú þjóð sem bjó við hvað bestu lífsskilyrði í heiminum hrundi í einu vetfangi allt fjármálakerfi landsins með gífurlega alvarlegum afleiðingum fyrir land og þjóð. Nú erum við að ljúka afgreiðslu þess máls sem hvað erfiðast hefur verið fyrir íslensku þjóðina að kyngja, ríkisábyrgð fyrir Icesave-skuldbindingarnar. Af því tilefni vil ég gjarnan þakka fjárlaganefnd fyrir alla vinnu nefndarmanna og þá sérstaklega hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir hans miklu vinnu í nefndinni en ekki hvað síst þakka ég formanni Framsóknarflokksins fyrir alla baráttu hans, þrautseigju og forustu í þessu máli.

Þetta er eitt stærsta mál Íslandssögunnar þar sem verið er að samþykkja að skuldbinda íslenskan almenning til að greiða gífurlegar skuldir óreiðumanna með eða án fyrirvara. Framsóknarmenn hafa barist gegn þessu máli af kappi frá upphafi. Fyrrum formaður Framsóknarflokksins, Guðni Ágústsson, var einn örfárra stjórnmálamanna sem mótmælti strax harðlega árás breskra stjórnvalda á fullveldi íslensku þjóðarinnar með beitingu hryðjuverkalaganna og frystingu eigna Landsbankans, íslenska ríkisins og fjölda annarra íslenskra fyrirtækja. Það tók einn til tvo sólarhringa að fá á hreint frá breskum yfirvöldum hvort frystingin næði aðeins yfir Landsbankann eða öll íslensk fyrirtæki með starfsemi í Bretlandi. Á meðan höfðu forustumenn íslenskra fyrirtækja ekki aðgang að eignum sínum. Skaðinn sem þessi árás olli verður væntanlega aldrei fyllilega metinn til fjár. Nánast samhliða kærðu Bretar okkur til ESA vegna mismununar á innstæðueigendum og héldu því fram að íslensk stjórnvöld ætluðu aðeins að ábyrgjast innistæður íslenskra ríkisborgara, þar á meðal innstæður í útibúum erlendis, og hvöttu til að ESB og ESA gripu til sambærilegra aðgerða og þeir. Þessi kæra hefur ekki verið dregin til baka þrátt fyrir að við séum búin að undirrita þennan samning, þrátt fyrir að hafa komið oft upp í samtölum milli breskra og íslenskra embættismanna, þrátt fyrir að Bretar hafi nú tekið Landsbankann af hryðjuverkalistanum og aflétt frystingunni og þrátt fyrir, eins og ég nefndi áðan, að hér gangast stjórnvöld nú við ýtrustu kröfum Breta og Hollendinga með samþykkt ríkisábyrgðarinnar. Hún hefur ekki enn þá verið dregin til baka. Mér þætti mjög áhugavert að heyra frá hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra hvað þeir hafa gert til að fá Breta til að draga þessa kæru til baka frá ESA.

Hvað gerðu íslensk stjórnvöld vegna þessara árása Breta á fullveldi og fjárhagslegt sjálfstæði landsins? Kærðu þau Breta til framkvæmdastjórnar ESB? Beittu þeir sér í NATO? Kölluðu þeir t.d. heim sendiherrann í Bretlandi? Fór forsætisráðherrann í heimsókn til breska forsætisráðherrans og talaði við hann eða tók hann bara upp símann og hringdi í hann? Nei, það þurfti Indefence-hópinn, hóp einstaklinga sem gersamlega blöskraði framferði Breta og aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda til að taka upp varnir fyrir íslensku þjóðina. Nei, það var ekki fyrr en bresk þingnefnd tók undir sjónarmið okkar að eitthvað heyrðist frá stjórnarliðum, og þó. Utanríkisráðherra refsaði svo sem Bretum grimmilega og neitaði að láta taka mynd af sér með Gordon Brown. Í kjölfarið klúðruðu íslensk stjórnvöld viljandi eða óviljandi öllum sínum vörnum í Icesave-málinu. Afleiðingin er þessi hörmulegi samningur sem við sitjum uppi með.

Afstaða okkar framsóknarmanna kristallast í eftirfarandi röksemdum:

Í fyrsta lagi leikur mikill vafi á hvort íslenska ríkinu beri yfir höfuð að greiða allar innstæður upp á rúmlega 20 þús. evrur. Samningurinn kemur í veg fyrir að úr þessari óvissu verði skorið. Að mínu mati breyta lagalegu fyrirvararnir engu þar um. Um þetta segir í breytingartillögu meiri hlutans, sem nú er búið að samþykkja, með leyfi forseta:

„Ekki hefur fengist leyst úr því álitaefni hvort aðildarríki EES-samningsins beri ábyrgð gagnvart innstæðueigendum vegna lágmarkstryggingar, þar á meðal við kerfishrun á fjármálamarkaði. Allt að einu hefur Ísland gengið til samninga við Bretland og Holland þótt það hafi ekki fallið frá rétti sínum til að fá úr þessu álitaefni skorið. Fáist síðar úr því skorið, fyrir þar til bærum úrlausnaraðila, að slík ábyrgð hvíli ekki á Íslandi eða öðrum aðildarríkjum EES-samningsins skal ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum bundin þeim fyrirvara að fram fari viðræður milli Íslands og viðsemjenda þess um áhrif þeirrar niðurstöðu á lánasamningana og skuldbindingar ríkisins.“

Sem sagt, ef það kemur einhvern tíma í ljós að við eigum ekki að borga og áttum aldrei að borga ætlum við að setjast niður og spjalla við þá sem eru að þvinga okkur til að borga. Framsóknarmenn hafa því lagt fram breytingartillögu til að reyna að bæta þessa handónýtu tillögu meiri hlutans sem segir að ef í ljós kemur að ríkisábyrgðin gildi ekki skuli tryggingarsjóðurinn aldrei greiða hærri upphæð en var í sjóðnum við upphaf bankahrunsins. Hvorki meira né minna.

Sami fyrirvari á einnig að gilda ef það skapast betri réttur á sviði Evrópulöggjafar. Það skýrist ef lagaleg skylda til að ábyrgjast innstæður minnkar eða á annan hátt liggur fyrir að ríkisábyrgð er ekki til staðar. Samningurinn og þær breytingartillögur sem meiri hluti þingsins hefur samþykkt kemur í veg fyrir að úr þessari óvissu verði skorið að frumkvæði ríkisins og kemur í veg fyrir að við njótum góðs af því að einhver annar reyni að fá úr því skorið. Ekki nóg með að fallist sé á greiðsluskylduna vegna gífurlegs pólitísks skilnings hjá vinaþjóðum okkar í ESB heldur felur samningurinn í sér að íslenskur almenningur greiðir langt umfram þá skyldu.

Þau mistök voru gerð að Bretar og Hollendingar stæðu jafnfætis íslenska tryggingarsjóðnum þegar til greiðslu úr þrotabúi Landsbankans kæmi. Bæði fremstu sérfræðingar landsins á þessu sviði sem og erlendir sérfræðingar hafa sett fram rökstutt álit um að það fyrirkomulag standist ekki. Við framsóknarmenn viljum því að það sé algerlega tryggt að tryggingarsjóðurinn láti á þetta reyna og teljum að breytingartillögur meiri hlutans tryggi það ekki þar sem enn á ný á að setjast niður og tala við lánveitendur. Því leggjum við til að ábyrgðin sé bundin því að stjórn sjóðsins láti á þetta reyna með málskotsrétti til héraðsdóms og Hæstaréttar og niðurstaðan gildi hvað varðar ríkisábyrgðina. Einnig leggjum við mikla áherslu á að ljóst sé að eftirstöðvar samningsins, ef þær verða einhverjar, falli niður árið 2024, en ekki að setjast niður og tala við lánveitendur líkt og meiri hlutinn leggur enn á ný til í breytingartillögum sínum.

Hins vegar verð ég að viðurkenna að þrátt fyrir að hafa eytt meiri hluta af mínum ræðutíma í að tala um þessa fyrirvara finnst mér nánast eins og ég sé í heimspekilegum vangaveltum. Það er nánast þannig að mér fallist hendur þegar ég skoða málið betur. Það er nefnilega svo mikil óvissa, eins og hefur komið fram í umræðunni, um hvort fyrirvarinn haldi þegar fram í sækir. Á því leikur alveg geysilega mikill vafi, enda réttur Breta og Hollendinga mjög sterkur í samningnum. Á þetta var bent í 2. umr. og er ljóst að meiri hlutinn hefur viðurkennt að mikil óvissa sé um hvort fyrirvarinn haldi jafnvel þótt Alþingi Íslendinga, æðsta stofnun íslenska lýðveldisins, sé búið að samþykkja þá. Því leggur meiri hlutinn til að inn í lögin komi nýtt ákvæði svo svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá. Enn fremur að lánveitendur samkvæmt þeim lánasamningum sem greinir í 1. mgr. viðurkenni að skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta séu háðar sömu fyrirvörum og ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum.“

Ástæðan fyrir þessu er einfaldlega að of mikill vafi leikur á hvort við getum á einhvern hátt verndað okkur gegn áhrifum samningsins hvað sem líður öllum fyrirvörum. Hér hefur einnig komið fram í umræðunni að þó að þeir fyrirvarar sem þegar er búið að setja hér fram dekka alls ekki þá óvissu og áhættu sem fylgja þessum samningum. Einn helsti sérfræðingurinn í skuldaskilum þjóðríkja, sem hefur samið fyrir mjög mörg lönd sem hafa lent í greiðsluerfiðleikum, benti okkur á það. Hann benti fjárlaganefnd á að það væri mjög erfitt, ef ekki nánast ómögulegt, að setja fyrirvara við samning sem væri að hans mati sé versti sem hann hefði nokkurn tíma séð. Einhliða skilyrði eru ekki gild þegar um er að ræða tvíhliða samning sem fellur auk þess undir breska lögsögu þegar kemur að túlkun.

Ef spá Seðlabankans um hagvöxt gengur ekki eftir og við greiðum minna en margir telja miklar líkur á eru Íslendingar þannig samkvæmt samningnum búnir að skapa sér skaðabótaskyldu gagnvart Bretum og Hollendingum vegna vanefnda. Taka þessir fyrirvarar á því? Er það alveg skýrt? Erum búin að setja fyrirvara við vanefndum? Ég tel að svarið við því sé nei. Vegna þessarar miklu óvissu og efasemda sem komið hafa upp um málið allt tel ég einfaldlega hreinlegast og heiðarlegast að semja upp á nýtt, að setja samninginn til hliðar og kalla Breta og Hollendinga aftur að samningaborðinu. Að lágmarki þarf að fá fram sjónarmið þeirra gagnvart fyrirvörunum þannig að ljóst sé að sami skilningur sé til staðar hjá öllum aðilum málsins. Það er að vísu gert með þeim fyrirvörum sem koma fram í breytingartillögum meiri hlutans en það er gert eftir að þingið er búið að samþykkja ríkisábyrgðina.

Við gengum til samninga með hin svokölluðu Brussel-viðmið að leiðarljósi og þar segir að tillit ætti að taka til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í. Þessir einhliða samningar þar sem hagsmunir Íslendinga eru að engu hafðir uppfylla einfaldlega ekki þau skilyrði. Því verðum við að hafna honum og semja upp á nýtt.