137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[09:10]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Senn líður að atkvæðagreiðslu um frumvarp ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð vegna Icesave-lánasamninganna með þeim breytingum sem þingið hefur gert á málinu. Það dylst væntanlega engum lengur sem í upphafi vildi kannski hafna því að horfast í augu við það. En eftir þá umræðu sem farið hefur fram dylst vonandi engum lengur að hér er ekki á ferðinni sama málið og ríkisstjórnin lagði upp með.

Ég held að það sé rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að eflaust erum við að fjalla um eitt stærsta mál sem þingið hefur þurft að fást við, a.m.k. er það rétt ef horft er til þeirrar skuldbindingar sem verið er að binda ríkissjóð í í krónum talið. Það er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu í þessu máli en að ríkisstjórnin féll á þessu prófi. Með því að leggja það fyrir þingið að við féllumst á ríkisábyrgð án fyrirvara fyrir þeim gríðarlegu skuldbindingum sem um var að ræða féll ríkisstjórnin á prófinu. Hún tryggði ekki einu sinni meiri hluta innan sinna eigin raða. Hvorki var einhugur í ríkisstjórninni né heldur hjá stjórnarflokkunum. En það er kannski ekki ástæða til að staldra sérstaklega við það vegna þess að þingið tók völdin í málinu og er við það núna að leiða málið til lykta í miklu betri farvegi en upphaflega stóð til.

Ég get ekki tekið undir með hæstv. forsætisráðherra þegar sagt er að gallar málsins hafi verið málaðir allt of sterkum litum. Það er ekki hægt að taka þá galla sem við erum að ræða um og mála þá of sterkum litum. Staðreyndin er sú að gallarnir eru þess eðlis að það þurfti meira og minna að snúa öllu málinu á hvolf. Málið fer út úr þinginu á eftir á röngunni þegar það er borið saman við upphaflegt frumvarp.

Var þetta mál prófsteinn á lýðræðið eins og hæstv. forsætisráðherra talaði um? Ég held að við eigum að láta þetta mál og önnur mál sem minnihlutaríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar og ríkisstjórn sömu flokka frá því eftir kosningar hefur haft á dagskránni verða okkur einmitt umhugsunarefni hvað lýðræðið snertir. Hvernig var þetta aftur með stjórnarskrárfrumvarpið sem kom frá minnihlutaríkisstjórninni? Var einhver tilraun gerð þar til að ná breiðri sátt og samstöðu áður en málið var lagt fram í jafnrisavöxnu máli og þar var á ferðinni? Nei, það átti að þvinga fram niðurstöðu án breiðrar sáttar og samstöðu sem alltaf hefur verið leiðarljósið við breytingar á stjórnarskránni.

Hvernig er með stór mál eins og t.d. orkumálin sem við Íslendingar munum þurfa að taka stórar ákvarðanir um á komandi missirum? Voru stjórnarflokkarnir tveir sammála fyrir kosningarnar um grundvallarákvarðanir í þeim málaflokki? Nei, þeir greiddu atkvæði í sitt hvora áttina í jafnstóru máli og þar var á ferðinni. Hvernig var það með Evrópusambandsmálið sem kom inn á þingið frá sömu ríkisstjórn? Það var engin samstaða innan stjórnarflokkanna tveggja um það hvernig halda ætti á því máli og aldrei leitað eftir breiðri samstöðu heldur kylfa látin ráða kasti á þinginu. Og þvert á hin fögru orð sem virðast vera notuð helst á tyllidögum um að við þurfum á þessum erfiðu tímum að efna til mikillar samstöðu um stórar ákvarðanir, var vaðið áfram af krafti og yfirgangi af þessari sömu ríkisstjórn. Þannig var það líka með Icesave-samningana að án þess að nokkur samstaða væri um þá í þinginu ætlaði ríkisstjórnin að ná sínu fram. Þetta eru auðvitað gríðarlega mikil hættumerki vegna þeirra stóru mála sem bíða okkar á vetri komandi, t.d. við fjárlagagerðina. Ef þetta eru vinnubrögðin sem ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar ætlar að viðhafa við gerð fjárlaganna fyrir komandi ár, þá stefnir í enn frekara óefni á þinginu. Ef þetta eru vinnubrögðin og verklagið sem á að beita við að leysa úr skuldavanda heimila og fyrirtækja, þá stefnir ríkisstjórnin í enn dýpra fen og meiri vandræði en hún hefur séð á þeim fáu vikum sem hún hefur starfað frá kosningum. Ríkisstjórn sem hagar sér svona rís auðvitað aldrei undir því að vera ríkisstjórn Íslands. Hún verður aldrei annað en valdabandalag Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Það verður ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar í ólíkum munstrum eftir því hvaða mál eru á dagskrá hverju sinni og svo verður treyst á skynsemi stjórnarandstöðunnar við að leysa úr erfiðustu vandamálunum. Ég held að íslenska þjóðin eigi annað og miklu betra skilið á þeim erfiðu tímum sem við lifum núna. Ég ætla að óska þess að ríkisstjórnin láti þennan leiðangur jafnilla og hann hefur farið af stað og þau stóru mál sem ég hef snert á verða áminningu um það hvernig best væri að halda á þeim málum sem fram undan eru, hvernig skynsamlegra væri að nálgast lausn á stórum, erfiðum viðfangsefnum á jafnviðkvæmum tímum og við lifum núna.

Ég ætla við lok þessarar umræðu ekki að fara nákvæmlega yfir allar þær efnislegu breytingar á frumvarpinu sem eru í farvatninu og við förum að staðfesta í atkvæðagreiðslu á eftir. Ég ætla einungis að vekja athygli á því að þingið er að setja öryggisnet í mál þar sem ríkisstjórnin var tilbúin til að taka áhættu. Það kom ekki aðeins fram í frumvarpinu sjálfu að þær skuldbindingar sem verið var að fara fram á við þingið að veitt yrði ríkisábyrgð fyrir væru háðar gríðarlega mikilli óvissu í framtíðinni heldur lá það efnislega í tillögunni sem ríkisstjórnin kom með í þingið að hún var tilbúin til að taka þá áhættu. Meðvitað var horft fram á það að þrátt fyrir þá gríðarlegu áhættu sem var verið að setja þjóðina í lagði ríkisstjórnin það til að sú áhætta yrði tekin, það átti að gambla með þetta mál. Þingið sagði nei. Þingið sagði: Það kemur ekki til greina. Og það sjónarmið sem þingið hefur komið inn í málið, t.d. um það að við fáum efnahagslegt öryggisnet í þetta mál, eru auðvitað sjónarmiðin sem ríkisstjórnin átti að halda uppi í viðræðunum við Breta og Hollendinga og ef ekki náðust samningar á skynsamlegum nótum sem taka tillit til þarfar okkar til að endurreisa efnahagskerfi okkar átti að sjálfsögðu aldrei að gera neinn samning. Ég held að það sé meginniðurstaðan eftir þessa umræðu að það er eðlilegt að samningarnir verði endurgerðir. Það er hárrétt hjá hæstv. forsætisráðherra að þessi niðurstaða hlýtur að leiða til þess að viðræður verði teknar upp við Breta og Hollendinga og að mínu áliti væri eðlilegt að þær viðræður mundu leiða til þess að samningarnir yrðu aðlagaðir að þeim skilaboðum sem eru að koma héðan, þannig að samningurinn endurspegli samkomulag á milli aðila um efnisatriði en séu ekki í reynd einhliða kröfur viðsemjenda okkar sem við höfum fallist á en veitt síðan stórkostlega takmarkaða ríkisábyrgð fyrir. Það er ekki þannig sem menn eiga að komast að niðurstöðu í jafnstóru máli og þessu.

Ég ætla líka að leyfa mér að taka undir með hæstv. forsætisráðherra þegar hún segir: Bretar og Hollendingar eiga að horfast í augu við það að kröfurnar sem Alþingi er að gera eru sanngjarnar og eðlilegar og þeim beri að fallast á þær. Það er með engu móti hægt að réttlæta það að taka að nýju upp kröfu um að Íslendingar fallist á ábyrgð á þessum lánasamningum án tillits til þess hvernig efnahagslífið þróast næsta áratuginn eða svo. Það er með engu móti hægt að gera það. Ef það verður krafa Breta og Hollendinga eftir það sem á undan er gengið, þá segi ég skýrt og skorinort: Þá verðum við að fá úr því skorið fyrir hlutlausum dómstólum hverjar skuldbindingar okkar eru á grundvelli Evróputilskipunarinnar eins og hún er rétt túlkuð. Ekki eins og Evrópuþjóðirnar vilja túlka tilskipunina þegar mest ríður á að þeirra sjónarmið verði ofan á.

Við munum styðja breytingartillögur sem liggja fyrir í málinu en ábyrgðin á þessu máli eins og það er vaxið og vegna órjúfanlegra tengsla ríkisábyrgðarinnar og samninganna sjálfra mun ríkisstjórnin sjálf og stjórnarflokkarnir þurfa að bera málið uppi.