137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[09:21]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Fyrirvararnir við Icesave-samningana sem nú eru til umræðu styrkja vissulega stöðu okkar og breyta málinu til mikilla muna en þeir eru afleiðing tíu mánaða þrotlausrar baráttu gegn þeirri niðurstöðu sem lengst af stefndi í. Það er ekki langt síðan ríkisstjórnin féllst yfir höfuð á að gera nokkra fyrirvara við þessa samninga. Upprunalega, á meðan þúsundir mana mættu á Austurvöll til að gera verulegar athugasemdir við allt í þessu máli, var lögð fram tillaga að fyrirvörum sem ekkert hald var í. Það var brugðist hart við því og fyrirvararnir smátt og smátt löguðust og reynslan hefur verið sú að í hvert skipti sem málið er skoðað betur, ef menn gefa sér bara tíma til þess að fara aðeins betur yfir það, finna þeir nýja og nýja galla.

Eftir 2. umr. benti Framsóknarflokkurinn á að það væri mjög óljóst hvort lagalegir fyrirvarar mundu yfir höfuð halda. Flokkurinn fékk úr sumum áttum gagnrýni fyrir að vera ekki með í samstöðunni. Það er ekki hægt að mynda samstöðu um óásættanlega niðurstöðu og nú hefur komið á daginn að sú niðurstaða sem þá stefndi í var algjörlega óásættanleg. Og enn berast ábendingar um gallana á þessum samningum. Síðast í nótt var ég að ræða við menn sem voru búnir að finna enn fleiri galla og enn fleiri hættur, m.a. mann sem vinnur hjá stórum bandarískum banka. Hann tók upp á því hjá sjálfum sér, eins og svo margir í samfélaginu, að skoða samningana vegna þess að hann treysti ekki stjórnvöldum fyrir verkefninu. Hann fann á þeim verulega galla og telur þá svo stóra að við ættum að fresta umræðunni í dag.

Hér er ekki svigrúm til þess að fara yfir þær ábendingar, hér ekki svigrúm til þess að fara yfir neinar af þeim fjölmörgu ábendingum sem komið hafa á síðustu dögum og það svigrúm var ekki einu sinni gefið í nefndinni þrátt fyrir fyrirheit þar um. Þess í stað hefur þetta mál verið keyrt í gegn af svo miklum ákafa að það er ekki einu sinni einn einasti maður með menntun í enskum lögum búinn að lesa samningana yfir eða fyrirvarana sem Alþingi er að gera. Það er ekki einn einasti maður með menntun í þeim lögum sem eiga að gilda um samningana búinn að skoða þá fyrir Alþingi og það er ætlast til þess að við göngum frá samningunum við þessar aðstæður.

Ég veit fyrir víst að það unnu margir í alla nótt við að leita leiða til þess að laga samninginn nú á lokastundinni. Það er ekki víst að gefið verði færi á því hér og þar af leiðandi tel ég að eina raunhæfa lausnin sé sú að fella þessa tillögu að ríkisábyrgð svo taka megi upp þráðinn að nýju, gera nýjan, bærilegan samning, því að allt í þessu máli hefur verið rangt, vinnan í upphafi, kynningin, fullyrðingarnar síðan þá og hugarfarið og nú stefnir í að niðurstaðan verði röng líka.

Strax er byrjað á því að reyna að endurskrifa söguna þó að öllum sé enn í fersku minni hvernig þetta mál kom inn í þingið og allir viti af því og muni eftir umræðunni um að þingmenn áttu ekki einu sinni að fá sjá samningana, hvað þá almenningur. Nei, nú er reynt af alveg ótrúlegri óskammfeilni að halda því fram að alltaf hafi staðið til að gera lagfæringar á þessum afleitu samningum. Það stóð svo sannarlega ekki til og það þurfti mikla baráttu, m.a. innan úr ríkisstjórninni, til að það tækist.

Þessir samningar standa engu að síður áfram ef þetta verður niðurstaðan og þeir hafa verulegar afleiðingar. Tölur eins og þær sem við erum að tala um hér hafa miklar félagslegar afleiðingar og jafnrisavaxnar tölur og birtast í Icesave-samningunum munu hafa miklar félagslegar afleiðingar á Íslandi. Þess vegna er lagt í þessa miklu baráttu og þess vegna höfum við talað um þetta mál svona lengi þó að margir séu eflaust orðnir leiðir á því.

Ég hef nefnt til samanburðar niðurskurðinn í lögreglunni þar sem einungis 13 klukkutíma vextir af Icesave-samningunum í niðurskurði í lögreglunni hafa sett þar allt á annan endann. Það leiðir hugann líka að því að afleiðingarnar ná miklu lengra því að hér er um að ræða útgjöld í erlendri mynt sem margfaldast í áhrifum á hagkerfið. Lögreglumaður sem ekki fær launin sín þarf að fara á atvinnuleysisbætur. Hann getur þá kannski ekki keypt skólabækur og því er hætta á því að einhver sem seldi skólabækurnar, skrifaði þær eða prentaði þær missi vinnuna. Afleiðingarnar af því að útdeila hundruðum milljarða kr. fyrir ekki neitt eru verulegar og miklu hærri en upphæðin gefur til kynna. Þetta er eitt af því sem hefur ósköp lítið verið skoðað í þessari umræðu.

Annað sem lítið hefur verið skoðað er möguleikinn á skuldajöfnun, sem kom reyndar aðeins til umræðu á síðustu stigum málsins. Bent var á að að sjálfsögðu ættu Íslendingar að halda á lofti þeim rétti sínum að skuldajafna við Breta, því að við skulum hafa það í huga að hér er ekki um það að ræða að Íslendingar séu að fara að endurgreiða innstæðueigendum í Bretlandi og Hollandi. Það er búið að endurgreiða allar þær upphæðir sem stendur til að greiða þar. Hér stendur til að borga breska og hollenska ríkinu, borga sama breska ríki og beitti Íslendinga hryðjuverkalögum sem höfðu óumdeilanlega í för með sér tjón upp á hundruð milljarða kr. Íslendingar hafa ekki reynt að verja sig hvað það tjón varðar. Nú er tækifæri til þess, það tækifæri virðist eiga að fara forgörðum eins og svo mörg önnur tækifæri í þessu máli og til hvers? Til þess að fá einhver viðbótarlán, halda áfram skuldsetningunni, þeirri skuldsetningu sem búin er að koma þjóðinni í þann vanda sem hún er í nú.

Það er mikill misskilningur ef menn halda að þeir geti endurheimt traust með því að játa á sig sakir umfram tilefni. Menn fá ekki klapp á bakið með því að lúta í gras, ekki frekar en barn á skólalóð, sem niðurlægir sig til þess að reyna að ganga í augun á eldri nemendum, kemst nokkurn tíma í þeirra hóp. Íslendingar ættu að þora að standa á rétti sínum, einungis þannig getum við verið upprétt í margumtöluðu alþjóðasamfélagi og einungis þannig verðum við tekin alvarlega.

Það sem við höfum séð í þessu máli eru ekki bara vinnubrögð sem eru algjörlega óásættanleg af hálfu löggjafarþings, við höfum líka séð hættulega þróun í hugarfari. Dyggðum er snúið á hvolf. Það má ekki lengur tala um stolt, það er frekar reynt að gera lítið úr fyrri afrekum þjóðarinnar til þess að gera aumingjaskapinn nú bærilegri. Sagan er endurskrifuð, sagt að aðstæður hafi verið allt aðrar hér áður fyrr. Í sjálfstæðisbaráttunni hafi þetta ekki verið svona erfitt vegna þess að þá voru utanaðkomandi aðstæður öðruvísi, jafnvel þorskastríðin hafi verið miklu auðveldari en þetta vegna þess að utanaðkomandi aðstæður hafi verið öðruvísi. Þetta er sögufölsun og einungis til þess gerð að menn geti betur sætt sig við þann aumingjaskap sem þeir sýna í málinu núna.

Ég ætla ekki að taka þátt í að gera lítið úr afrekum þjóðarinnar í fortíðinni til að gera aumingjaskap núverandi ríkisstjórnar bærilegri. Við ættum frekar að líta til þeirra afreka sem þessi þjóð hefur við miklu erfiðari aðstæður en nú náð fram. Íslendingar voru ekki nema á bilinu 50–70 þúsund á 19. öldinni þegar þeim þótti sjálfsagt að landið yrði sjálfstætt ríki þó að í heiminum væru ekki nema u.þ.b. 20 sjálfstæð lönd, hvert þeirra milljóna stórríki. Þá þótti 50 þúsund Íslendingum ekkert sjálfsagðara en að við fengjum sjálfstæði og þeir voru tilbúnir að berjast fyrir því og taka mikla áhættu og jafnvel tilbúnir að vitna í 600 ára gamla sáttmála máli sínu til stuðnings. Ætli einhverjum þætti ekki hallærislegt núna ef farið væri að vitna í 600 ára gamla sáttmála?

Þess þarf ekki. Það nægir að vitna í núgildandi lög Íslands og Evrópusambandsins en menn eru ekki einu sinni tilbúnir til þess. Árið 1918 þegar þjóðin fékk loksins fullveldi voru hér innan við 100 þúsund manns. Margir höfðu afskaplega litla trú á því að 100 þúsund manns hefðu nokkuð við sjálfstæði að gera og áhættan sem því fylgdi væri allt of mikil. Ef það hugarfar sem hefur verið ríkjandi af hálfu meiri hluta ríkisstjórnarinnar í þessu máli hefði ráðið för væri Ísland ekki enn orðið sjálfstæð þjóð.

Ég veit að það má líklega ekki tala um þorskastríðin en ég ætla samt að nefna þau vegna þess að það hefur verið gert frekar lítið úr þeim til þess að réttlæta gjörðirnar nú, en ætli áhættan hafi ekki verið töluverð þá þegar menn fóru í stríð við eitt mesta herveldi heims og langstærsta útflutningsmarkað Íslands? Ætli efnahagsleg áhætta hafi ekki verið mikil svo ekki sé minnst á líf og limi? Menn létu sig hafa það vegna þess að þeir höfðu stolt og ætluðu ekki að lúta í gras.

Nú virðist því miður um stund úrtölufólk, sem alltaf hefur verið til í gegnum þessa sögu sem ég rakti, ætla að verða ofan á. En það er einungis þegar slíkar raddir hljóðna sem Íslandi vegnar fram á veginn. Þörfin fyrir að kveða niður slíkar raddir hefur sjaldan verið jafnmikil og nú.