137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[09:41]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Bhr):

Frú forseti. Er réttlætanlegt að ríkið taki að sér að axla ábyrgð á einkaskuld sem getur ef illa fer skert lífsgæði allra sem hér á landi búa? Er hæstv. forseti meðvitaður um þann skaða sem hljótast mun af þeirri ákvörðun að samþykkja samninginn?

Gámarnir bíða í hrönnum eftir búslóðum þeirra sem geta ekki réttlætt það fyrir sér að búa hér lengur ef þetta verður samþykkt. Fólkið sem er að fara er fólkið sem getur farið. Fólkið sem er að fara mun sennilega ekki koma aftur, ef fer sem fer. Fólkið sem er að fara ætlar að taka fyrirtækin sín með sér, menntun sína, starfsreynslu sína, börnin sín, framtíðarskatttekjur.

Innra með mér er uggur því að ég veit að þetta er dropinn sem fyllir mælinn, þetta er dropinn sem fær fólk til að bregðast við. Þetta snýst nefnilega ekki bara um góðan eða vondan samning, þetta snýst um grundvallaróréttlæti, um grundvallarsjálfsvirðingu þjóðar sem er orðin örmagna af fréttum um spillingu og krosseignatengsl viðskipta, þingheims, fjölmiðla, þetta snýst um að nokkrum mönnum tókst með aðstoð sofandaháttar heils stjórnkerfis að hneppa þjóðina í fjötra fátæktar og bágra lífsgæða. Þetta snýst um sundraðar fjölskyldur og mannslíf. Þetta snýst um sjálfsvirðingu þjóðar.

Það að láta undan þeirri kúgun sem við erum beitt af hálfu breskra yfirvalda með því að samþykkja þó svo breyttan nauðungarsamning þar sem skuldum einkaaðila er velt yfir á alla landsmenn að þeim forspurðum er óásættanlegt. Fólk upplifir þetta sem hina algjöru niðurlægingu. Sá óttaáróður sem hefur viðgengist í kringum þetta mál hefur haft sín áhrif á marga þingmenn sem munu greiða atkvæði með málinu og samþykkja með því að það sé réttlætanlegt að almenningur taki á sig skuldir einkaaðila.

Sumir halda því fram og trúa því að þessar skuldir hverfi eins og dögg fyrir sólu eftir sjö ár. Sumir ráðherrar hafa talað um töframenn þegar þeir hæðast að þingmönnum fyrir að vilja allsherjaraðgerðir fyrir heimilin í landinu. Þessir sömu ráðherrar hafa látið það í veðri vaka að Icesave-skuldbindingin hverfi — manni verður oft hugsað til galdrakarlsins í Oz þessa dagana þegar maður horfir upp á þær sjónhverfingar sem viðgangast á þessum ágæta stað.

Frú forseti. Láttu ekki blekkjast þó að sumarið hafi verið rólegt úti á Austurvelli, réttláta reiðin vex að nýju þegar myrkrið hefur innreið sína á vetrarmánuðum. Reiðin hefur farið stigmagnandi eftir því sem það hefur orðið deginum ljósara að sumarþingið snerist fyrst og fremst um ESB og Icesave en ekki neyðaraðgerðir fyrir almenning.

Í dag hefði ég viljað spyrja ríkisstjórnina hvað hún ætlar að gera fyrir þá sem eiga ekki fyrir mjólk, fyrir þá sem geta ekki farið í skóla vegna fátæktar, fyrir þá sem sjá engan tilgang með því lengur að borga í svartholið sem engan enda virðist ætla að taka. Í dag hefði ég viljað sjá vonarneista til handa þjóðinni minni, ég vona með sanni að þegar þessi ríkisábyrgð verður samþykkt glati fólk ekki voninni, heldur muni að það er alltaf dimmast fyrir dögun. Það sem hefur fengið mig til að sjá smávon í þessu Icesave-svartnætti er að þingheimi tókst að vinna saman að því að gera vondan hlut betri. Þingmenn hófu sig ofar flokkapólitík og lögðu á sig gríðarlega mikla vinnu til að tryggja samstöðu um fyrirvara á þessum handónýta samningi sem samninganefndin færði þjóðinni. Hann er sannkallaður köttur í sekknum. En gleymum því ekki að þessir fyrirvarar eru nauðvörn, þessir fyrirvarar ættu að fella samninginn ef allt væri hér með felldu og það vona ég svo sannarlega að þessir fyrirvarar muni gera. Það þarf nefnilega að senda fólk út að semja sem getur valdið því. Ég legg svo til og mæli með, frú forseti, að næst verði Buchheit fenginn til verksins ef hann er enn fáanlegur til þess.

Frú forseti. Ég get ekki undir nokkrum kringumstæðum samþykkt þennan nauðasamning þó að ég muni heils hugar styðja þá fyrirvara sem hér verða lagðir fram. Mér finnst sú vinna sem átti sér stað við gerð fyrirvaranna mikilvægur grunnur að nýju samkomulagi. Ef við fáum bestu mögulegu samningamenn til að semja upp á nýtt held ég að við getum átt von á því að geta staðið uppi með glæsilega niðurstöðu, niðurstöðu sem tryggir að þeir sem efndu til þessarar skuldar verði einir látnir axla ábyrgð á því fjárhagslega tjóni sem þeir hafa valdið þjóðinni.

Sú vinna sem þingmenn lögðu á sig mun nýtast og er vonandi upphafið að breyttum vinnubrögðum á þinginu þar sem fólk úr öllum flokkum hefur einsett sér að nýta sér þá þekkingu, fagmennsku og yfirsýn sem má finna innan allra flokka. Gleymum því ekki að við erum alltaf fyrst og fremst að vinna að þjóðarhag þó að áherslur okkar séu oft mjög ólíkar. Með þeirri þverpólitísku vinnu sem átti sér stað í kringum Icesave-nauðvörnina höfum við sýnt að á ögurstundu er hægt að finna flöt á samvinnu sem við þurfum að viðhalda í kringum þau erfiðu mál sem eiga eftir að koma fyrir þingið á næstunni. Vinnan í kringum Icesave er fyrsti vísir að þeirri þjóðstjórn sem ætti að vera sett saman til að vinna þjóðina upp úr þeim erfiðleikum sem hún stendur frammi fyrir. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem hafa lagt á sig mikla vinnu innan þings sem utan til að hægt væri að finna sem breiðasta sátt um fyrirvarana sem, eins og ég áður nefndi, eru mikilvægur grunnur að nýjum samningi.

Frú forseti. Mig langar að lokum að minna þjóðina okkar á að gefast ekki upp þrátt fyrir að ríkisábyrgðin verði samþykkt í dag. Við megum ekki gefast upp sama hvað er í gangi í kringum okkur. Segja má að við séum í sjálfstæðisbaráttu sem er rétt að byrja og við þurfum á ykkur að halda til að veita þinginu aðhald, til að berjast gegn þeim ofuröflum sem hafa hafið innreið sína inn fyrir landsteinana, þar verður okkur án efa AGS skeinuhættastur og hætt við, miðað við hvernig hlutirnir eru að þróast, að við glötum auðlindum okkar í hendurnar á alþjóðafyrirtækjum sem eiga sér langa sögu í arðráni hjá knésettum þjóðum. Þessi orrusta er kannski töpuð, en þær blikur eru á lofti að orrusturnar verði fleiri og því skora ég á ykkur að gefast ekki upp, heldur beita ríkisvaldið þrýstingi, að það standi við gefin loforð um lýðræðisumbætur og alvöruuppgjör á þessu hruni. Haldið á lofti kröfunni um réttlæti, að heimilin fá alvörustuðning en ekki bómullargjaldþrot og tilsjónarmenn. Það er kominn tími á að ríkisstjórnin setji heimilin á oddinn, búi til það umhverfi og þær aðstæður að fleiri fyrirtæki rúlli ekki.

Það er kominn tími á að hefja endurreisnina.