137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:23]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Með þessari breytingartillögu er í rauninni komin staðfesting á því sem framsóknarmenn óttuðust. Meirihlutatillögurnar sem voru til umræðu við 2. umr. voru ekki nægilega sterkar. Það liggur fyrir. Ef við gerum breytingu þess efnis að Hollendingar og Bretar þurfi að samþykkja það sem við gerum á Alþingi Íslendinga, eins ankannalegt og það hljómar, hlýtur að vakna spurningin: Hefði ekki verið eðlilegast og skynsamlegast að leggja samningana til hliðar og semja upp á nýtt? (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Enn þá eru í samningunum fjölmörg atriði sem eru ósanngjörn og algjörlega óaðgengileg fyrir Íslands hönd.