137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er sammála þeim þingmönnum sem hér koma upp og telja líklegt að það muni reyna á fyrirvarana í þessu máli. Þess vegna skiptir öllu að það sé skýrt hvað þingið á við með þeim breytingum sem verið er að gera á frumvarpinu og ég tel að það sé orðið alveg skýrt. Ég tel að þær breytingar sem urðu núna á milli 2. og 3. umr. hnykki sérstaklega á þessu mikilvæga atriði, þ.e. að ríkisábyrgðin er eitt og hún gildir bara í takmarkaðan tíma og hún er háð efnahagslegum og lagalegum fyrirvörum, samningarnir eru annað. Í þessari breytingartillögu er fjallað um þá stöðu sem er háð mikilli óvissu í dag og við eigum að afgreiða með þeim hætti að óvissuna þurfum við að viðurkenna og þess vegna er ekki loku fyrir það skotið að aðilarnir þurfi að eiga með sér viðræður en þær munu einungis snúast um samningana sjálfa, ekki ríkisábyrgðina. Hvergi í þessari grein (Forseti hringir.) er fjallað um að menn komi til með tala saman um ríkisábyrgðina. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, það er aðeins Alþingi sem getur gert breytingar á þeirri ríkisábyrgð sem verður afgreidd hér í dag.