137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:41]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður benti á að það væri afar óeðlilegt ákvæði í lánasamningunum sem segði að breski innstæðutryggingarsjóðurinn stæði jafnfætis við útgreiðslu á fjármunum úr þrotabúi Landsbankans. Það er breytingartillaga þess efnis hjá meiri hlutanum ef innstæðutryggingarsjóðurinn eigi að höfða dómsmál. Við leggjum einfaldlega til að það verði látið á það reyna fyrir slita- og skiptastjórn þrotabús Landsbanka Íslands hvort kröfur hans gangi við úthlutun framar öðrum hluta krafna vegna sömu innstæðu. Þetta er lykilatriði til þess að rétturinn til að fara í dómsmál stofnist. Ég vil taka það fram vegna þess að hér komu þingmenn Sjálfstæðisflokksins áðan og sögðu að þeir vildu ekki ganga inn í samningana. Meiri hlutinn er með breytingu í svipaða veru einmitt um að ganga inn í samningana. Við erum að breyta ósanngjörnu ákvæði samninganna og það er einmitt það sem næsta atkvæðagreiðsla (Forseti hringir.) gengur út á. Ég segi já.