137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:05]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Virðulegur forseti. Hér er Alþingi að greiða atkvæði um mál sem kom handónýtt frá framkvæmdarvaldinu. Alþingi tók völdin. Það er því skref í rétta átt hvað þingræðið varðar á Íslandi í þessu máli. Þingið hefur unnið vel og gert margar mikilvægar breytingartillögur við þetta frumvarp og þær styð ég.

Hér er hins vegar líka verið að velta skuldum einkafyrirtækis yfir á almenning í landinu, skuldum sem stofnað var til í siðspilltu og óréttlátu viðskiptaumhverfi sem stofnað var til þar sem líka þreifst siðspillt stjórnmálaumhverfi. Því get ég ekki greitt þessari ábyrgð atkvæði mitt.