137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

160. mál
[11:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli framsögumanns skrifaði ég undir nefndarálitið með fyrirvara. Það var fyrst og fremst af tæknilegum ástæðum frekar en vegna efnis frumvarpsins. Eins og þingmenn vita er ekki hægt að setja lög sem gilda afturvirkt. Þess vegna er smálýðskrumslykt af þessu því að raunverulega er bara verið að fela það vald til þingmanna að þeir megi senda Ríkisendurskoðun bókhald sitt og að ríkisendurskoðandi megi taka við því. Þetta afturvirka ákvæði heftir mjög frumvarpið miðað við það sem farið var af stað með í byrjun og ríkisstjórnin kynnti en lagatæknileg atriði urðu til þess að ekki var hægt að fara fram með málið í þeim búningi.

Ég vildi að það kæmi fram. Á fundum nefndarinnar kom einnig fram að það væri engin skylda hjá þingmönnum að gera þetta af því að lögin eru ekki afturvirk og margir stjórnmálamenn — því að þetta á náttúrlega við um alla stjórnmálamenn, ekki bara þingmenn — væru því búnir að henda bókhaldinu. Þetta væri kannski til þess fallið að æsa fjölmiðlamenn upp í að komast í bókhald stjórnmálamanna en það verður hver og einn þingmaður að gera þetta upp við sig. Þetta frumvarp er lagt fram af öllum formönnum stjórnmálaflokkanna og ég og Framsóknarflokkurinn munum greiða þessu frumvarpi atkvæði okkar en ég vildi koma þessum tæknilegu atriðum til skila.