137. löggjafarþing — 60. fundur,  28. ág. 2009.

þingfrestun.

[11:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir hönd okkar alþingismanna flytja hæstv. forseta og varaforsetum bestu þakkir fyrir samstarfið í vetur og hlý orð í okkar garð. Fundir forseta með formönnum þingflokka hafa verið reglulegir og tíðir eins og þingmönnum er kunnugt. Þrátt fyrir að tekist hafi verið á um þinghaldið var andrúmsloftið í alla staði mjög vinsamlegt á þessum fundum og ánægjulegt að geta greint frá því.

Sumarþingið hefur verið óvenjulegt fyrir margra hluta sakir. Þó standa tvö mál upp úr eins og við öll vitum. Eðlilega eru alþingismenn misjafnlega sáttir með hvernig til hefur tekist og þannig er það vafalaust einnig meðal landsmanna. Á haustþingi tel ég mikilvægt að við treystum stöðu Alþingis með faglegri en gagnrýninni vinnu og minnum þannig á hlutverk Alþingis.

Ég vil að lokum færa forseta og fjölskyldu hans bestu kveðjur fyrir hönd okkar alþingismanna, og starfsfólki Alþingis þakka ég einnig góð störf, lipurð og fúslega veitta aðstoð og þakka því sérstaklega fyrir alla aðstoð við ekki síst okkur, þessa nýju þingmenn sem hingað komu. Bið ég þingmenn að taka undir góðar kveðjur til forseta Alþingis og fjölskyldu hans og þakkir til starfsfólks Alþingis með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]