138. löggjafarþing — þingsetningarfundur

þingsetning.

[14:24]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Ég býð háttvirta alþingismenn og gesti við athöfnina velkomna til þingsetningar á þessum fagra haustdegi.

Þegar alþingismenn komu hér saman við upphaf þings fyrir réttu ári voru ýmis teikn á lofti um að óvissutímar væru fram undan en líklega hefur þó fæsta rennt grun í á þeirri stundu hvað þau dökku ský sem sáust á himni efnahagslífsins boðuðu fyrir þingstörfin og allt þjóðlífið sl. vetur og liðið sumar. Og enn bíða ærin verkefni nýs þings og margar erfiðar ákvarðanir. Landsmenn horfa nú til Alþingis í þeirri von að fulltrúar þeirra á þjóðþinginu leysi úr þeim mikla vanda sem við blasir. Það er von mín að við berum gæfu til að taka með farsælum hætti á þessum verkefnum og að við getum náð sem víðtækastri samstöðu um úrlausn þeirra. Þá er líka mikilvægt í ljósi þeirra miklu verkefna sem okkar bíða á haustþinginu að ráðherrar hraði sem mest framlagningu þeirra mála sem þeir hyggjast fá afgreidd á löggjafarþinginu. Vænti ég góðs samstarfs við ríkisstjórn um þetta efni.

Hlutverk Alþingis hefur verið nokkuð til umræðu þetta átakamikla ár sem liðið er í stjórnmálum. Ýmsir þingmenn gagnrýndu þátt Alþingis í viðbrögðum við fjármálakreppunni síðasta haust og mælingar á viðhorfum almennings til þingsins voru ekki uppörvandi fyrir okkur alþingismenn. Þær mælingar endurspegla þó fyrst og fremst viðhorf fólks til framgöngu stjórnmálamanna. Ég fullyrði að traust þjóðarinnar á þeirri stofnun sem Alþingi er hafi ekki bilað, það sýndu alþingiskosningar og þátttaka í þeim í vor.

Það eru ekki ný sannindi þótt sagt sé að hlutverk Alþingis sé viðameira en svo að það sé einvörðungu ein grein ríkisvaldsins sem er aðalhandhafi löggjafarvaldsins. Alþingi hefur ýmis önnur hlutverk. Eitt þeirra er eftirlitshlutverkið, sem sumir vilja telja hið mikilvægasta í stjórnkerfi eins og okkar þar sem meirihlutastjórnir eru hinn ráðandi aðili í opinberri stefnumótun.

Í síðustu viku kom út skýrsla vinnuhóps sem forsætisnefnd setti á fót í júní 2008 til að fara yfir gildandi lagareglur um eftirlit Alþingis með handhöfum framkvæmdarvaldsins og leggja mat á hvort breytinga væri þörf í ljósi samfélagsþróunarinnar. Skýrslan hefur jafnframt verið birt á vef Alþingis og þannig gerð öllum aðgengileg. Vinnuhópurinn hefur skilað af sér mjög yfirgripsmikilli og vandaðri úttekt og vil ég þakka hópnum fyrir góð störf og ekki síður fyrrverandi forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssyni, fyrir frumkvæði hans að því að koma þessari vinnu af stað.

Í skýrslunni er staða þingsins í stjórnskipuninni skoðuð vandlega og settar fram skýrar ábendingar um hvernig efla megi möguleika Alþingis til að sinna eftirlitshlutverki sínu. Þar er að finna á þriðja tug tillagna um ýmis atriði sem hópurinn leggur til að ráðist verði í að endurskoða og bæta. Ég hvet alla alþingismenn til að kynna sér efni þessarar skýrslu og tillögur hópsins enda tel ég að skýrslan sé mjög þarft innlegg inn í þá umræðu sem fram undan er um þær umbætur sem gera þarf á mörgum þáttum í stjórnkerfi okkar í kjölfar þeirra efnahagsáfalla sem við höfum orðið fyrir. Forsætisnefnd hefur þegar haldið einn fund um niðurstöður skýrslunnar og nefndin mun á næstunni móta tillögur um hvernig heppilegast verði að vinna úr þessum niðurstöðum í samráði við forustu þingflokkanna og ríkisstjórn.

Í byrjun næsta árs er þess að vænta að formlegar viðræður hefjist milli Íslands og Evrópusambandsins um umsókn Íslands um aðild að sambandinu. Þó að þær viðræður séu af Íslands hálfu á hendi ríkisstjórnarinnar þá bíða Alþingis eigi að síður ákveðin verkefni í umsóknarferlinu. Þá er ljóst að þetta umsóknarferli mun setja sterkan svip á alþjóðasamstarf Alþingis á næstu missirum. Það kemur t.d. í hlut Alþingis að sinna samskiptum við Evrópuþingið, bæði við forustu þess og nefndir svo og þingflokkana á Evrópuþinginu sem eru mikilvægir valdahópar innan þingsins. Þá verður það Alþingis að sinna tengslum við þjóðþing einstakra ríkja Evrópusambandsins í þessu ferli. Afstaða Evrópuþingsins og þjóðþinganna mun ráða miklu um endanlegar lyktir málsins af hálfu Evrópusambandsins. Það er síðan íslensku þjóðarinnar að taka endanlega ákvörðun um það hvort til aðildar komi.

Ég vænti þess að mega eiga gott samstarf við alla háttvirta alþingismenn á þessu þingi og að okkur auðnist að haga störfum í þessum sal þannig að Alþingi og alþingismönnum öllum sé sómi að. Þjóðin ætlast til þess.