138. löggjafarþing — 2. fundur,  5. okt. 2009.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Á morgun verður ár frá hruni, frá því að guð var beðinn um að blessa Ísland. En þegar bankarnir hrundu haustið 2008 urðu straumhvörf í íslensku efnahagslífi, starfsemi á fjármálamarkaði stöðvaðist, gengi krónunnar féll, vextir hækkuðu, eignarverð lækkaði. Djúpur samdráttur varð í hagkerfinu með vaxandi atvinnuleysi og fjölgun gjaldþrota, mikill tekjuhalli myndaðist á ríkissjóði ásamt stóraukinni skuldsetningu. Þessi er staðan sem við er að etja og kannski ekki nema von að árið hafi verið okkur öllum, þjóðinni, langt og strangt.

Að mörgu leyti hefur árið 2009 snúist um fortíð en ekki framtíð. Íslenska þjóðin er særð eftir hrunið og okkur er nauðsynlegt að grafast fyrir um hvað fór úrskeiðis og hvernig annað eins gat gerst. Sú spurning var áberandi í ræðum sem voru fluttar í þessum sal fyrir ári: Hvernig gat þetta gerst? Á því hefur reyndar verið tekið af þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Sú ríkisstjórn sem nú situr réð erlendan ráðgjafa sér til aðstoðar, embætti hins sérstaka saksóknara var styrkt, þrír saksóknarar voru ráðnir og auknir fjármunir voru veittir til þess að rannsaka bankahrunið til hlítar. Aukinheldur mun rannsóknarnefnd Alþingis skila niðurstöðum sínum í nóvember í skýrslu sem formaður hennar hefur nefnt að verði ein verstu tíðindi fyrir íslenska þjóð í langan tíma. Engin sátt verður nema við fáum svör við því hvað fór úrskeiðis og hverjir báru á því ábyrgð og um það hljótum við öll að vera sammála. En á sama tíma er það brýnt verkefni að halda samfélaginu gangandi, byggja upp sterkt efnahagskerfi, tryggja félagslegt réttlæti og jafnrétti, standa vörð um velferðina og innviði samfélagsins og byggja upp framsýna og græna atvinnustefnu. Að þessari endurreisn þurfa allir að koma, ríkisstjórn, Alþingi, samtök launafólks og atvinnurekenda.

Verkefnið er risavaxið og þess vegna má enginn skorast undan. Öll þau skref sem við stígum eru mikilvæg til að leggja grunn að betri framtíð. Við vitum auðvitað öll að árið fram undan og líklega næstu 2–3 ár verða strembin. Við megum hins vegar ekki gleyma því sem vel er gert og við munum vinna bug á vandanum og sigra fjöllin sem fram undan eru.

Eins og forsætisráðherra fór yfir í ræðu sinni hefur verið unnið að markvissum aðgerðum í þágu lánþega sem birtast nú í tillögu hæstv. félagsmálaráðherra og miða að því að hjálpa sem flestum til að missa ekki heimili sín vegna bankahrunsins. Venjulegt fólk bar ekki ábyrgð á hruni bankanna og þótt getu ríkissjóðs séu mikil takmörk sett þarf að koma í veg fyrir að allt það venjulega fólk sem fór sér gætilega og reisti sér ekki hurðarás um öxl verði gjaldþrota vegna glæfraspils fjármálamanna. Gripið hefur verið til margvíslegra úrræða til að auðvelda sem flestum að komast í gegnum þá erfiðleika sem við er að glíma. Ég vil vekja athygli á samstarfi mennta- og félagsmálaráðherra sem miðar að beina fólki í nám en það samstarf skilar verulegri hækkun á grunnframfærslu námslána. Enn fremur hefur verið unnið að breytingum á námslánakerfinu, t.d. með afnámi kröfu um ábyrgðarmenn á námslánum sem felur í sér miklar úrbætur fyrir alla námsmenn. Nú er unnið áfram af sömu ráðuneytum að því að þróa frekari menntunarmöguleika fyrir atvinnulaust fólk.

Fjárlagafrumvarpið sem nú er lagt fram er líklega lítt til vinsælda fallið og ég held að ekki hafi nokkrum manni dottið í hug að það yrði þannig. En niðurskurðurinn fram undan þarf ekki að koma neinum á óvart. Hann er afleiðing hrunsins, afleiðing gríðarlegar skuldsetningar þjóðarbúsins þar sem heilt bankakerfi lagðist á hliðina með hörmulegum afleiðingum. Auðvitað er niðurskurður ekkert gleðiefni en hann verður ekki til af engu.

Það hefur verið reynt að standa nokkurn vörð um velferð og menntun með því að gera vægari kröfu á þessa málaflokka, 5% kröfu til heilbrigðis- og félagsmála og 7% kröfu á skólamál meðan aðrir málaflokkar glíma við 10% kröfu. Eigi að síður bitnar þetta auðvitað líka á þeim sem síst skyldi, þeim sem sátu eftir í góðærinu, öldruðum og öryrkjum, því að fjárlagafrumvarpið felur í sér byrðar á alla þjóðfélagshópa þótt reynt sé að dreifa þeim með réttlátum hætti og láta þá sem breiðustu bökin hafa bera þyngstu byrðarnar. Flestum þykir nóg um í niðurskurðinum og telja ansi hart fram gengið. Svo eru auðvitað þeir sem telja ekki nóg að gert og má þar nefna Viðskiptaráð sem er á kunnuglegum slóðum í gagnrýni sinni og virðist ekki telja ástæðu til að endurmeta eigin áherslur þó að sumar ályktanir þess fyrir hrun hljómi núna eins og misheppnaðir brandarar.

Ríkisstjórnin hefur í björgunarstörfum sínum verið gagnrýnd fyrir að hafa ekki lagt grunn að nægilega róttækum breytingum á íslensku samfélagi. Það má alveg taka undir það því að við þessar aðstæður fer mikil orka í að reyna að bjarga landinu frá gjaldþroti. Hluti gagnrýninnar snýr að samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sjóð sem æ fleiri Íslendingar eru orðnir gagnrýnir á og á sér langa og skelfilega sögu í þróunarlöndum heims. Á meðal þess sem hann hefur verið gagnrýndur fyrir er að nota kreppu til að koma orkulindum og auðlindum í hendur erlendra stórfyrirtækja hratt og örugglega. Gegn slíkum yfirgangi á að standa og gegn honum stöndum við. En stundum þarf ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til. Meiri hluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í Reykjavík ákvað illu heilli að selja hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Hitaveitu Suðurnesja til kanadísks fyrirtækis, Magma Energy. Gegn þeim ákvörðunum beitti ríkisstjórnin sér og sumir hafa einmitt gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir þá afstöðu en það hættulegasta við kreppuna er einmitt þetta, krafan um skyndilausnir sem flestar snúast um að selja fjölskyldusilfrið, ganga óhóflega á náttúruauðlindir og valda óbætanlegum skaða. Slíkt má ekki henda. Við megum ekki missa tækifærið til að byggja upp sjálfstætt efnahags- og atvinnulíf þar sem hagsmunir samfélags, umhverfis og efnahags fara saman. Við megum ekki missa tækifærið til að læra eitthvað af kreppunni og byggja upp betra samfélag en var áður.

Þessi ríkisstjórn tók höndum saman um að halda áfram með efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar flestar aðrar dyr virtust lokaðar einmitt vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti aldrei þessu vant ekki skilyrði af þessu tagi. En það samstarf er auðvitað ekki hugsað til eilífðar og því fyrr sem því lýkur, því betra. En til þess að íslenskt efnahagslíf geti rétt úr kútnum þarf að hefja niðurgreiðslu skulda, það þarf að byggja upp íslenskt bankakerfi, það þarf að ljúka hinu umdeilda Icesave-máli, vextir verða að lækka og gengi íslensku krónunnar þarf að styrkjast og síðan þarf að hugsa fyrir næstu bankakreppu. Það þarf skýrari löggjöf um banka og viðskiptaumhverfi þannig að tryggt sé að lögin nái þá yfir hegðun sem íslenska auðstéttin gerði sig seka um í hruninu og fyrir hrun.

En þó að neikvæðar fréttir séu áberandi eru ýmis góð teikn á lofti. Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá er áætlað að árið 2009 dragist viðskiptahallinn hratt saman, verði 7% af landsframleiðslu. Gert er ráð fyrir að gengi krónunnar haldist stöðugt yfir árið 2010 og að verðbólgan fari minnkandi. Kannski er mesti vágesturinn atvinnuleysið og þó að upphaflegir spádómar hafi jafnvel gert ráð fyrir allt að 20% atvinnuleysi, og við erum sem betur fer ekki í þeirri stöðu, er atvinnuleysi 8,6% og næsta ár er spáð svipuðu atvinnuleysi hér og á evrusvæðinu og í Bandaríkjunum. En þetta er hins vegar einn alvarlegasti fylgifiskur kreppunnar og sannkallað þjóðarmein fyrir jafnvinnusama þjóð og Íslendingar hafa lengi verið.

Þó að þessar tölur sýni okkur að kreppan herji víða um lönd breytir það því ekki að það fór miklu verr hjá okkur Íslendingum en hjá öðrum þroskuðum lýðræðisríkjum. Við megum ekki gleyma að ýmsir þættir kreppunnar eru heimatilbúnir. Íslenskt atvinnulíf og Íslendingar höfðu skuldsett sig langt umfram það sem eðlilegt gat talist. Íslensk fjármálafyrirtæki tóku fjarstæðukennda áhættu, fremstir í flokki eru hugmyndasmiðir Icesave-samninganna sem brostu allan hringinn. Við skiljum það öll núna, er það ekki? Áhættan er öll á íslenska ríkinu. Þáverandi stjórnvöld brugðust ekki nægilega snemma við og andspænis þeim vanda stöndum við núna. Það er ekki nema von að ekki séu allir á eitt sáttir um það hvernig leysa eigi úr þessari færaflækju. Mér eru minnisstæð orð tékknesks mótmælanda sem sagði um þáverandi forseta, Václav Havel: Hann segir margt gott um lýðræði og hugmyndafræði en fólk almennt hefur meiri áhuga á að geta keypt sér brauð. Og þannig líður vafalaust mörgum Íslendingum. Fólk hefur áhyggjur af sínu daglega brauði og það vill fá lausnir. En gleymum því ekki að alveg eins og hugsjónum þurfa að fylgja aðgerðir verða aðgerðir líka að fylgja hugsjónum.

Þá kemur að því sem ég vil segja að lokum. Auðvitað er það svo að fólk greinir á um leiðir og sá ágreiningur er ekki bundinn við stjórn og stjórnarandstöðu. Það er eðlilegt að við rökræðum og tökumst á en tímarnir krefjast þess að við horfum á það sem sameinar fremur en það sem sundrar. Skotgrafarhernaður er ófrjór og mannskemmandi því að þjóðin er undir, heill hennar og framtíð og hún á að vera í forgangi. Íslendingar hafa áður borist á banaspjót í innbyrðis deilum og hjaðningavígum. Það skilaði ekki góðu á Sturlungaöld og það mun ekki skila góðu núna. Gleymum því ekki að það á að fara varlega með orð, þau geta sprungið eða sem öllu verra er, það getur vöknað í púðrinu. Og gleymum því heldur ekki að við eigum menntaða og skapandi þjóð. Við eigum auðlindir sem unnt er að nýta með skynsamlegum hætti, öfluga samfélagslega innviði, öflugan sjávarútveg, öflugan sjávarútveg, landbúnað, ferðaþjónustuiðnað, öfluga menningu sem er okkur til sóma um allan heim. Ferðin fram undan er auðvitað krefjandi. Fjallið er bratt en veganestið er gott og ef við berum gæfu til að horfa á það sem sameinar fremur en það sem sundrar er hægt að nota erfiðleikana nú til að búa í haginn fyrir framtíðina og tryggja að hörmungaratburðir síðasta árs endurtaki sig ekki í náinni framtíð. Það á að vera helsta umræðuefni okkar næstu missirin. Sóum ekki þessari kreppu heldur lærum af henni.