138. löggjafarþing — 2. fundur,  5. okt. 2009.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Kæru landsmenn. Við höfum val. Það er aldrei bara ein leið, ein lausn. Að halda slíku fram ber vitni um ótrúlega rörsýn á þann veruleika sem við búum við. Fjarri lagi er að við séum fyrsta og eina þjóðin sem hefur þurft að glíma við kreppu og efnahagslegt hrun. Það sem e.t.v. gerir stöðu okkar sérstaka er að við erum í efnahagslegu stríði — stríði við þjóðir sem svo sannarlega neyta aflsmunar til að ná sínu fram. Þýðir það að allar aðrar leiðir séu lokaðar? Er kannski til annar möguleiki en að reyra skuldabagga erlendra lána á bak þjóðarinnar um aldur og ævi?

Vissulega er skynsamlegt að borga sem allra fyrst niður vaxtakostnað ríkisins en er e.t.v. til önnur leið? Af hverju má ekki skoða, eða í það minnsta ræða, það sem lausn að fara í skuldastöðvun? Þær tölur sem ég heyri um skuldastöðu þjóðarinnar eru svo miklar og háar og svo hátt hlutfall af landsframleiðslu að samkvæmt öllum stöðlum sem við berum okkur við erum við tæknilega gjaldþrota. Er kannski betra að horfast í augu við veruleikann áður en það er of seint? Er kannski betra fyrir þjóðina að taka skellinn strax í stað þess að bæta stöðugt við erlendu lánin? Viljum við bjóða börnum okkar upp á þá vonlausu stöðu sem mörg vanþróuð ríki hafa þurft að bjóða sínum framtíðarkynslóðum upp á? Viljum við verða enn eitt ríkið sem gerir ekki neitt annað en að borga vexti af erlendum lánum? Hvað er það versta sem gæti gerst ef við förum í skuldastöðvun? Mun himininn hrynja? Munum við svelta? Munum við aldrei aftur fá lán frá alþjóðasamfélaginu? Auðvitað ekki.

Við höfum fengið að heyra álit fjölmargra sérfræðinga sem bera Alþjóðagjaldeyrissjóðnum ekki fagra sögu. Þeir vara okkur við því að halda áfram á þeirri vegferð sem við erum á. En vita þessir ágætu menn eitthvað um hvað þeir eru að tala? Einn þeirra fékk Nóbelsverðlaun í hagfræði og vann um langa hríð fyrir sjóðinn, annar var efnahagsböðull fyrir hann og enn annar er heimsþekktur hagfræðingur. Sumir sérfræðingar hafa lagt til að við förum í bandalag eða í það minnsta leitum okkur ráða hjá þeim þjóðum sem hafa boðið Alþjóðagjaldeyrissjóðnum birginn eða farið illa út úr því að fylgja þeirri stefnu sem sjóðurinn fer fram á að tekin sé upp til þess að hægt sé að fá lán hjá honum. Munum við geta haldið efnahagslegu sjálfstæði ef við höldum áfram að trúa því að eina mögulega lausnin úr skuldavandanum sé að stofna til fleiri og fleiri og enn fleiri skulda? Kannski ættu þeir sem glíma við ofneyslu af einhverju tagi ekki að taka þetta sér til fyrirmyndar því samkvæmt þessu væri lækningin við ofneyslu væntanlega að neyta meira. Ég skil hreinlega ekki þessa aðferðafræði.

Því miður er veruleikinn sá að ef við höldum áfram á þeirri leið sem hæstv. ríkisstjórn er að fara mun þjóðin sligast undan vaxtabyrðum erlendra skulda. Endurgreiðsla á erlendum lánum mun taka stóran bita af öllum hagvexti og þjóðarframleiðslu. Eftir standa tvær leiðir hæstv. ríkisstjórnar, sem okkur er boðið upp á, niðurskurður á velferðarkerfinu og skattpíning. Ekki hafa komið fram neinar ásættanlegar leiðir til að leiðrétta það óréttlæti sem almenningur hefur orðið fyrir. Hvernig á er hægt að ætlast til þess að þjóðin axli slíkar byrðar sem yfirvofandi niðurskurður felur í sér ef ekki er hægt að sjá til lands — ef ekki er hægt að treysta því að fórnirnar verði til einhvers? Það er einfaldlega ekki hægt að ætlast til þess.

Nú þurfum við að taka ákvarðanir sem fela í sér von, sem fela í sér réttlæti, sem endurvekja heilbrigða tilfinningu stolts yfir því að búa á þessari eyju sem í hugum margra er nánast óbyggileg. Við getum og eigum að leita allra leiða til að finna sameiginlegar lausnir. Bretar lýstu yfir stríði þegar þeir stimpluðu þjóðina hryðjuverkamenn — bresk yfirvöld hafa beitt okkur efnahagslegum hryðjuverkum með því að misnota Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, með því að misnota aðildarumleitanir að ESB, til þess að þvinga fram niðurstöðu í Icesave sem er í eðli sínu siðferðilega röng. Það er rangt að leggja á herðar almennings í landinu skuldbindingar sem hann efndi ekki til.

Yfirvöld virðast ekki átta sig á því að við erum í efnahagsstríði og að þjóðinni hafi verið gerð slík atlaga að ekki er hægt að svara henni með kurteisi og halda því fram án þess að blikna að þjóðinni beri að bera byrðar fjárglæframanna sem fengu óáreittir að veðsetja vinnu þjóðarinnar um ókomna áratugi á meðan stjórnsýslan svaf.

Skilmálum Breta og Hollendinga varðandi Icesave verður að hafna í þágu þjóðarafkomu og þjóðaröryggis. Viðbrögð þeirra við hófsömum og sanngjörnum fyrirvörum á ríkisábyrgð undirstrikar yfirgang þeirra. Reyni íslensk stjórnvöld að standa við Icesave-samkomulagið og Alþjóðagjaldeyrissjóðsprógrammið gæti það leitt til fólksflótta, skaðað heilbrigðisþjónustu og menntun, rýrt vinnuafl, hamlað virkri fjárfestingu og valdið varanlegri þjóðfélagshnignun.

Ég mótmæli því að ráðamenn haldi því fram að við, þjóðin, eigum að borga skuld sem við aldrei efndum til. Hvaða forsendur eru fyrir því að við, þjóðin, eigum að borga 20.000 evrur á hvert mannsbarn? Ég hef heyrt að við verðum að borga því að Bretar og Hollendingar beiti aflsmun til að stoppa afgreiðslu AGS-lánsins. Ég hef heyrt að þingmenn þeirra hafi verið óvægnir og ókurteisir við okkar þingmenn í síðustu viku á Evrópuþinginu og sagt oftar en einu sinni að ef þjóðin axli ekki þessar byrðar fáum við ekki að ganga í Evrópusambandið. Ég veit ekki með ykkur, hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsætisráðherra, en mér finnst kominn tími til að losa okkur úr þessari sjálfheldu og leita annarra leiða.

Hreyfingin styður eftirfarandi hugmyndir að aðgerðum til að koma okkur úr þeim efnahagslega öldudal sem við erum í:

Í fyrsta lagi ættum við að losa okkur við ítök Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í landsmálunum með öllum tiltækum ráðum. Evrópusambandið hefur verið fjandsamlegt Íslandi í kringum Icesave og því óráðlegt að halda áfram umsóknarferli um sinn.

Í öðru lagi ættum við að hefja aðgerðir til þess að hafa stjórn á spákaupmennsku, fyrst með því að setja á 0,1% „Tobin-skatt“ á allar fjármálafærslur og hagnað, þar með talið afleiður, hlutabréf, gjaldeyrisviðskipti og vöruspákaupmennsku, stöðva eignaupptöku hjá heimilum og fyrirtækjum og endurnýja regluverk fyrir banka og fjármálamarkaði.

Nú stefnir í að hægri og vinstri armar stilli sér upp í hefðbundnar skotgrafir. Harmakvein heyrast nú þegar út frá þeim pólitísku víglínum sem alþekktar eru, um að niðurskurðurinn sé ekki nægur eða að rangt sé að skattleggja þá sem mest hafa.

Oft heyrir maður rætt um að við þurfum að komast handan þessarar hægri/vinstri stefnu sem oft skipar fólki í andstæðar fylkingar. Aldrei hefur verið jafnmikilvægt og núna að lyfta málefnunum á hærra plan en skotgrafahernað úreltra gilda.

Þegar ég lít yfir verkefnalista þessarar ríkisstjórnar sé ég mörg mikilvæg málefni á dagskrá og ég fagna því og heiti stuðningi okkar við að hrinda mörgum þeim frumvörpum sem þar er að finna í framkvæmd. Mikið hefur verið rætt um þjóðstjórn og utanþingsstjórn. Ekki hefur gefið góða raun að mynda slíka samsteypu áður en kannski er þessi kreppa sem við glímum við, þetta algera siðrof, þess eðlis að allir sem kosnir eru fulltrúar þjóðarinnar þurfi að fá að axla ábyrgðina á endurreisninni saman. Ekki þætti það góðri lukku stýra að sá aðili sem hefur glatað sameiningartákninu yrði sá sem skipaði utanþingsstjórn. Því finnst mér sá möguleiki rýr og nánast óframkvæmanlegur.

Undanfarið ár hefur mér og félögum mínum í Hreyfingunni verið hugleikið hvað gæti fengið þjóðina til að sameinast og vinna sig út úr þeim hremmingum sem fram undan eru. Hvað fengi okkur til að trúa því að eitthvert vit væri í því að reyna að komast út úr þessum þrengingum og óréttlæti? Er raunhæft að ætlast til þess að almenningur leggi á sig þá erfiðu tíma sem fram undan eru ef ekki er hægt að finna eitthvað sem fær okkur til að vinna að þessu saman? Oft er rætt um að á þinginu sé sundurleitur hópur fólks, skoðanir þingmanna eru að mörgu leyti endurspeglun af skoðunum kjósenda þeirra. Kannski ætti næsta stóra verkefni okkar allra að vera að finna saman þá leið sem við viljum fara. Kannski þurfum við að hugsa lengra en næstu fjögur árin. Kannski þarf að verða hér markviss umræða um það hvernig þjóð við viljum vera. Margir koma sárir undan gróðærinu, margir tóku þátt, hrifust með straumnum og finna til samviskubits. Aðrir tóku aldrei þátt og þeim finnst hart að sér vegið með því að stöðugt meira er klipið af þeim sem þó áttu ekki mikið fyrir. Þjóðarpúlsinn er ör og reiður.

Hið nýja Ísland er ekki það Ísland sem flestir kölluðu eftir. Kallað var eftir lýðræðisumbótum, þau frumvörp sem lögð hafa verið fram til að vinna slíkum umbótum brautargengi eru frekar máttlaus og eru ekki það kallað var eftir. Þjóðin vill fá að kjósa þvert á lista — persónukjörsfrumvarpið býður ekki upp á það. Þjóðin þarf stjórnlagaþing sem henni er boðin aðkoma að en rándýrt ráðgefandi stjórnlagaþing hinna útvöldu er aðeins skrumskæling á því sameiningartákni sem slíkt þing gæti verið ef annarri aðferðafræði væri beitt. Í nóvember bjóða nokkrir kraftmiklir Íslendingar upp á þjóðfund, hann verður vonandi vegvísir að því sem fólki finnst mikilvægast að hér verði gert.

Við þingmenn erum hér á þinginu til að framkvæma vilja þjóðarinnar. En til þess að það sé hægt verður þjóðin að gera upp við sig hvað hún vill. Það er alveg ljóst að það er nánast sama hvaða ríkisstjórn er hér við völd – þær þrengingar sem við erum að glíma við munu baka þeim sem stýra landinu óvinsældir. Til þess að hér verði ekki viðvarandi stjórnarkreppa er mikilvægt að þingið taki sér aftur þau völd sem því voru upphaflega falin. Nú er málunum þannig háttað að framkvæmdarvaldið hefur þingið í gíslingu. Það er eðlilegt og hollt fyrir lýðræðið að framkvæmdarvaldið noti ekki þingflokka sína sem stimpilpúða fyrir sig. Þessi ríkisstjórn hefur sett fordæmi fyrir alla og kallað eftir því að þingminnihluti vinni eftir sinni sannfæringu, samanber ESB. Það hlýtur að gilda fyrir þingmenn meiri hlutans líka. Hjarðeðlið varð okkur að falli, látum það ekki gerast aftur. Foringjadýrkun varð okkur að falli, látum það ekki gerast aftur. Hreyfingin vill vera málpípa almennings hér á þinginu, við eigum engra hagsmuni að gæta nema ykkar.

Halldór Laxness hafði einstaka innsýn í þjóðarsál okkar. Maístjarnan hans, ljóð vonarinnar, syngur í hjarta mér þegar ég hugsa til þjóðarinnar minnar þessa dagana og sér í lagi þetta erindi:

Það eru erfiðir tímar,

það er atvinnuþref,

ég hef ekkert að bjóða,

ekki ögn sem ég gef,

nema von mína og líf mitt

hvort ég vaki eða sef,

þetta eitt sem þú gafst mér

það er alt sem ég hef.

Það eru erfiðir tímar og það er hörkuvetur fram undan, en við megum aldrei gleyma því að alltaf er dimmast fyrir dögun, það er til von ef við finnum hana saman. Til þess að það sé hægt verður að vera hér raunverulegt uppgjör, hér verður að vera raunveruleg breyting og við verðum að sjá til lands. Ef við sjáum tilgang með fórnunum er ég viss um að þessi þjóð geti haldið áfram að gera lítil kraftaverk, haldið áfram að hrinda hinu ómögulega í framkvæmd og þá verður þessi vertíð kreppunnar e.t.v. ekki jafnlöng og erfið og hún lítur út fyrir að verða. Það er óraunhæft að halda því fram að á næsta ári fari allt upp á við, það er ábyrgðarlaust að halda slíku fram. En það er raunhæft að setja sér markmið sem við getum öll verið sammála um. Hver þessi markmið eru er ykkar að ákveða og okkar að framkvæma.