138. löggjafarþing — 2. fundur,  5. okt. 2009.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:25]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Góðir Íslendingar. Menntamál og heilbrigðismál eru grundvallarmál í hverju velferðarríki. Hvar stöndum við í þessum málaflokkum? Nú þegar kreppir að þarf að nýta öll tækifæri til að forgangsraða. Það má finna tækifæri í kreppunni. Það eru tækifæri innan menntageirans. Af hverju nýtist ekki fjármagnið sem við setjum til menntamála betur? Samkvæmt svokölluðum PISA-könnunum þurfa nemendur okkar að bæta sig. Við mælumst í miðlungsárangri meðal viðmiðunarlanda. OECD hefur gagnrýnt yfirvöld og bent á að þessi árangur geti ekki talist ásættanlegur miðað við að Ísland nýtir meira fjármagn en nokkur önnur þjóð innan OECD á hvern nemanda. Það hlýtur að vera algert forgangsverkefni hjá hæstv. menntamálaráðherra að koma með sýn á það hvernig koma megi Íslandi ofar á árangurslistann og nýta fjármagnið vel.

Það eru líka tækifæri í heilbrigðisgeiranum. Í kreppuna þarf að stokka upp og forgangsraða, nýta hverja krónu betur. Ætla stjórnvöld að gera það? Svarið er nei. Það er ekkert sem bendir til þess. Hæstv. forsætisráðherra kaus að nefna ekki bleika fílinn í ræðu sinni, minntist ekki orði á að fyrrum heilbrigðisráðherra væri nýhlaupinn úr ríkisstjórn hennar. Fyrrum heilbrigðisráðherra hljóp frá verkefninu, sagðist vera á hlaupum frá Icesave, segist samt bera fullt traust til félaga sinna í því máli og gerir hvað? Skilur heilbrigðismálin eftir í einu stóru tómarúmi.

Hvað sagði fyrrum ráðherra um brotthlaup sitt? Í Fréttablaðinu 1. október segir, með leyfi forseta:

„Ögmundur segist skilja heilbrigðisráðuneytið eftir í góðum höndum þess starfsfólks sem þar vinnur, sem og í heilbrigðisgeiranum. Spurður út í þá stefnumörkun sem hann skilur eftir sig segir hann hana aðallega lúta að vinnubrögðum.“

Orðrétt er síðan haft eftir hv. þm. Ögmundi Jónassyni:

„Stefnumótunin í þessu ráðuneyti og stofnunum þess er að verulegu leyti óháð ríkisstjórnum og ráðherrum. Hún snýr að framtíðarskipan heilbrigðismála í landinu. Ég hef hins vegar getað komið að málum sem lúta að vinnubrögðum og áherslum.“

Virðulegi forseti. Ég segi bara eins og unglingarnir: Halló, sæll. (Gripið fram í: Góðan daginn.) Hvað er fyrrum ráðherra að segja? Ríkisstjórn og ráðherrar skipta engu máli. Ég var bara upp á punt í ráðuneytinu. Ég kom ekkert að stefnumótun, ég hafði þó „smotterísáhrif“ á einhver vinnubrögð. Þetta er staðan. Fyrrum ráðherra kom ekki að stefnumótuninni. Af hverju ekki? Vildi hann það ekki? Gat hann það ekki? Af hverju lét fyrrum ráðherra allt danka? Þetta er með öllu óskýrandi. Hvar var metnaðurinn? Hér á greinilega ekki að taka á málum og forgangsraða í heilbrigðismálunum, hvorki þegar horft er til þingmála né fjárlagagerðarinnar. Það er engin forgangsröðun. Nei, það á að skera flatt. Flóttaleið númer eitt, skera flatt.

Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri Landspítalans, sem fór í ársleyfi 1. október, gagnrýnir afar harkalega áform stjórnvalda um flatan niðurskurð á Landspítalanum á Morgunblaðinu í dag. Hún stýrði hópi sem skilaði nákvæmri aðgerðaráætlun um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu árið 2010 fyrir stjórnvöld með aðaláherslu á svokölluð kragasjúkrahús. Áætlunin ber yfirskriftina „Frá orði til athafna“. Hún segir í Morgunblaðinu í morgun, með leyfi virðulegs forseta:

„Það liggur því fyrir aðgerðaáætlun með sparnaðartölum sem hægt er að vinna eftir og draga þannig úr þeirri þjónustuskerðingu sem ella þyrfti að ráðast í. En ef farið verður í flatan niðurskurð án þess að ráðast í þær hagræðingaraðgerðir sem við höfum lagt til þá er það hættulegt …“

Hulda segist vera á móti flötum niðurskurði og um slíkan niðurskurð segir hún:

„Það er auðveldasta leiðin en þá er ekki tekið á vandanum. Það þarf að gera stærri breytingar á þjónustu spítalanna og auðvitað er Landspítalinn þar ekki undanskilinn. En ef ráðist er í uppsagnir á 450–500 manns á Landspítalanum þá hefur það áhrif á öryggisnetið.“

Þetta er allt hárrétt hjá Huldu.

Það hæfir betur stöðu mála innan heilbrigðisgeirans í dag að kalla stöðuna ekki „Frá orði til athafna“ heldur miklu frekar „Frá orði til flótta“.

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin þykist hafa jafnrétti kynjanna að leiðarljósi. Á tyllidögum segir ríkisstjórnin að konur eigi að koma að endurreisn íslensks samfélags en jafnréttismálin eru látin danka. Ríkisstjórnin samþykkti í febrúar að setja á fót jafnréttisvaktina til að meta áhrif efnahagsástandsins á stöðu kynjanna og sagðist vera einhuga um að við endurreisn íslensks efnahagslífs ætti jafnrétti kynjanna að vera haft að leiðarljósi. Hvar er nú þetta mál statt? Jú, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir sagði af sér sem formaður jafnréttisvaktarinnar, að eigin sögn vegna óánægju með seinagang hæstv. félagsmálaráðherra Árna Páls Árnasonar við ákvarðanatöku um starfsemi hópsins.

Kvennasamtök bíða einnig í forundran eftir því að hæstv. ráðherra skipi jafnréttisráð sem samkvæmt lögum á að gera eftir alþingiskosningar. Það er beðið og beðið. Ríkisstjórnin verður að taka sig saman í andlitinu í þessum málaflokki.

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra kom inn á ferðamál í ræðu sinni. Á síðustu árum hefur ferðamönnum fjölgað um tæplega 10% árlega og verða líklega um milljón árið 2016. Nú þegar eru ferðamálin þriðji stærsti gjaldeyrispóstur okkar og kemur næst á eftir stóriðju og útflutningi sjávarafurða. Það er hrópandi skortur á rannsóknum og áætlanagerð í ferðamennskunni. Þetta þarf að laga. Í ferðamennsku er mikill vaxtarbroddur sem við verðum að nýta okkur á næstum árum til að fjölga atvinnutækifærum og ná inn gjaldeyristekjum. Punktur hæstv. forsætisráðherra um ferðamálin var einn sá jákvæðasti í ræðu hennar. Í öðrum málaflokkum segir þessi ríkisstjórn pass. Það er ekki við hæfi eins og staðan er í samfélaginu í dag. — Góðar stundir.