138. löggjafarþing — 2. fundur,  5. okt. 2009.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:32]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Virðulegi forseti. Kæra þjóð. Nú er ár liðið frá hruni efnahagslífs Íslands, hruni sem hefur falið í sér stærstu gjaldeyris- og fjármálakreppu sem nokkur þjóð hefur orðið fyrir á friðartímum, eins og hæstv. forsætisráðherra benti á.

Samfélagssáttmálinn rofnaði þegar fólkið var skilið eftir með skuldirnar en þeim sem til þeirra stofnuðu hefur enn ekki verið gert að sæta ábyrgð. Það er ekki skrýtið að fólk sjái ekki tilganginn í því að taka þátt í að reka samfélag sem því finnst óréttlátt. Þetta verður ekki lagað nema með því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að leiðrétta skuldir heimilanna. Leiðrétta þarf þá hækkun á höfuðstól skuldanna sem er til komin vegna stórtæks forsendubrests. Það er ekki nóg að leiðrétta bara greiðslubyrðina og vonast til þess að vandinn leysist af sjálfu sér í einhverri óskilgreindri framtíð. Skuldsetning íslenskra heimila er ein sú mesta á byggðu bóli og á henni verðum við að taka án tafar. Annars er veruleg hætta á að við missum besta fólkið okkar úr landi enda er ekki hægt að ætlast til þess að almenningur vilji búa hér lengur og taka þátt í uppbyggingu samfélags án réttlætis. Það er þetta fólk sem verður að hjálpa okkur að draga vagninn, án þeirra rýrnar okkar dýrmætasta auðlind, mannauðurinn.

Frú forseti. Ég tek undir með hæstv. forsætisráðherra þegar hún segist vilja byggja hér upp samfélag sem er betra en það sem við þekktum fyrir hrun. Til þess að það sé hægt verðum við að hætta öllum pólitískum sandkassaleik. Við þær aðstæður sem nú ríkja hafa hugtökin vinstri og hægri ekkert gildi. Nú ríður á að við stefnum öll í sömu átt, fram á veginn.

Frú forseti. Mig langar að leggja það til að orðið „stjórnarandstaða“ verði sett á hilluna þar til við sjáum til lands. Við getum talað um stjórn og minni hluta í staðinn, eða jafnvel meiri hluta og minni hluta. Orðið stjórnarandstaða er gildishlaðið og felur í sér þá fullyrðingu að þeir sem hana skipa séu sjálfkrafa á móti öllu sem stjórnin hefur fram að færa. Það er ekki svo. Við vinnum öll að sama markmiði, við viljum öll ná landi, við viljum það sem er Íslandi og Íslendingum fyrir bestu. Það sem skiptir mestu núna er að koma okkur á réttan kjöl en ekki hvaða flokkar skipa ríkisstjórn nú eða næst eða gerðu það í fyrra eða þar áður. Ábyrgð okkar allra er mikil og við þurfum að vera samtaka í að fylgja sannfæringu okkar í þeim stóru verkefnum sem fram undan eru.

Frú forseti. Í því gjörningaveðri sem hefur dunið á okkur síðasta árið hefur mér fundist gott að sjá að framtak einstaklinga og grasrótarhópa getur skipt sköpum. Mig langar að þakka öllum þeim sem hafa sent ábendingar, tillögur og hugleiðingar til stjórnvalda um hvernig bæti megi samfélagið og lágmarka það tjón sem hrunið felur óhjákvæmilega í sér. Jafnframt langar mig að beina því til ríkisstjórnarinnar að hún taki öllum ábendingum fagnandi og með opnum hug, hvort sem þær koma frá stjórnarliðinu, minni hlutanum eða almenningi. Allir flokkar sem nú eiga sæti á Alþingi hafa komið með tillögur að lausnum og þær eru allar góðra gjalda verðar og eiga skilið að verða teknar alvarlega.

Frú forseti. Það er ekki bara ein leið út úr kreppunni, þær eru margar. En til þess að við komumst leiðina á enda, hverja þeirra sem farin er, þurfum við að þora að hugsa út fyrir ramma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Við þurfum að þora að standa uppi í hárinu á þeim sem reyna að kúga okkur og við þurfum að reisa samfélag okkar við á okkar eigin forsendum eftir þeim leiðum sem okkur henta. Við þurfum að horfast í augu við vandann, meta hann og, ef til þess kemur, viðurkenna vanmátt okkar. Í því er ekki fólgin skömm. Við þurfum að setja undir okkur hausinn og halda út í storminn, óhrædd við framtíðina, með þá vissu í huga að grasið grænkar alltaf aftur. — Ég þakka áheyrnina.