138. löggjafarþing — 2. fundur,  5. okt. 2009.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:49]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Það fjárlagafrumvarp sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi ber vitni þeim stóru verkefnum sem bíða okkar að leysa á næstu vikum og mánuðum. Það vitnar sömuleiðis um að þær stoðir sem reistar höfðu verið undir íslenskt efnahagslíf reyndust ekki eins traustar og af var látið, svo ekki sé nú fastara að orðið kveðið. Á örskotsstundu snerist afgangur í rekstri ríkisins í stórkostlegt tap og skuldlítið samfélag skuldar nú upphæðir í áður óþekktum stærðum.

Á árinu 2010 er gert ráð fyrir að Íslendingar muni þurfa að greiða um 100 milljarða í vexti af skuldum sínum. Það er ríflega sú upphæð sem áætlað er að kosta til reksturs heilbrigðiskerfisins alls á næsta ári. Þessu til viðbótar eru síðan enn að koma upp á yfirborðið afleiðingar efnahagslegrar óstjórnar síðustu ára, eins og sjá má merki um í fjárlagafrumvarpinu.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um að að baki svo gífurlega háum vaxtagjöldum eru risavaxnar skuldir og að ef ekkert verður að gert mun vaxtabyrði sem þessi verða okkur óyfirstíganleg. Þessar skuldir verður að greiða niður með öllum tiltækum ráðum og á eins skömmum tíma og mögulegt er.

Ríkisstjórnin greip strax í sumarbyrjun til aðgerða til að styrkja afkomu ríkissjóðs og forða landinu frá enn frekari skakkaföllum en annars hefðu orðið. Þær aðgerðir miðuðu að því að draga úr halla á rekstri ríkissjóðs og laga reksturinn að þeim veruleika sem við búum við og það hefur gengið eftir að stórum hluta. Fjárlagafrumvarp næsta árs er í sama anda, þ.e. að rekstur verði lagaður að raunverulegri getu ríkissjóðs og þeim fjármunum sem við höfum úr að spila.

Það verður að vera markmið okkar að úr efnahagshruninu verði til annað og betra umhverfi að búa í en það sem við bjuggum okkur sjálf til á síðustu árum. Við verðum alltaf að hafa efst í huga í öllum okkar verkum að þess sjáist skýr merki að við höfum lært af því sem aflaga fór og að við ætlum að skapa nýtt og betra samfélag úr þeim rústum sem við vorum sett í. Þjóð, sem ekki lærir af svo afdrifaríkum mistökum sem hér voru gerð, lærir aldrei neitt og er ekki við bjargandi.

Þannig þjóð erum við Íslendingar ekki. Við munum komast út úr þeim erfiðleikum sem að okkur steðja og við höfum til þess öll tækifæri ef vel er á málum haldið. Ísland mun endurheimta orðspor sitt og verða aftur þjóð á meðal þjóða og Íslendingar eru þjóð sem stendur við skuldbindingar sínar og axlar ábyrgð á eigin gjörðum. Við skulum ekki láta afleiðingar af gjörðum tiltölulega fárra nokkuð heimskra og gráðugra, oftast nær miðaldra, íslenskra karlmanna, koma okkur á hnén eða velta okkur við, það skulum við ekki gera.

Við skulum þvert á móti snúast til varnar og búa okkur til samfélag sem öðru fremur verður reist á jöfnuði og félagshyggju í stað þeirrar græðgi og óhófs sem heyrir nú vonandi fortíðinni til. Þau verk sem bíða okkar við endurreisn Íslands verða ekki unnin af fáum heldur af okkur öllum. Það getur enginn skorast undan því stóra verkefni og það má enginn víkja sér undan ábyrgð. Það á ekki síst við um okkur hér í þessum sal. Ekkert stjórnmálaafl er stærra en þjóðin og engin einstaklingur er svo stór að hann geti sett sjálfan sig og eigin hagsmuni ofar þjóð sinni eða þjóðarhagsmunum. Það er heldur enginn ómissandi en um leið er engum ofaukið í þeim bardaga sem nú stendur yfir fyrir efnahagslegu sjálfstæði Íslands. Ísland þarf einfaldlega á öllu sínu fólki að halda og það verður ekki undan verkunum vikist, þau eru þarna enn þá, við vitum hver þau eru, þau komu okkur ekki á óvart, við báðum um þau sjálf og við eigum að leysa þau.

Virðulegi forseti. Það er auðvelt að treysta þegar allt leikur í lyndi. Mikilvægara er það þó að geta treyst þegar mikið gengur á og stormarnir geisa. Við skulum vera fólk sem treystir hvert öðru til góðra verka í stað þess að efast og tortryggja hvert annað og við skulum sýna þjóðinni okkar að okkur er treystandi. Þá mun okkur vel farnast.