138. löggjafarþing — 2. fundur,  5. okt. 2009.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:54]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Úti er kalt og það snjóar. Það mun vera sama veður og fyrir akkúrat ári síðan þegar þáverandi forsætisráðherra hélt sína stefnuræðu. Hvort það er vísbending um að ástandið sé nákvæmlega eins í samfélaginu, ekkert hafi gerst og við vöknum upp á morgun eins og væri 2008, veit ég ekki en vonandi er bjartara fram undan.

Nú þegar eitt ár er liðið frá hruni bankanna er athyglisvert að skoða árangur okkar í að verjast fallinu. Margt hefur verið vel gert en einnig afar margt misfarist. Áhugavert er jafnframt að skoða hvernig þetta gat gerst og hverjir eru ábyrgir. Smátt og smátt kemst skikk á það ferli með rannsóknarnefndum, sérstökum saksóknara og síðar væntanlega dómstólum. Allt er þetta nauðsynlegt og má hvorki spara atgervi né fjármagn til að tryggja að réttlætið nái fram að ganga. Án réttlætis verður hvorki friður né sátt í íslensku samfélagi.

Þrátt fyrir nauðsyn þess að leggja ríka rækt við þessa tvo þætti er þó mikilvægast að horfa fram á við. Hvernig rísum við úr öskustónni? Hvernig samfélag ætlum við að skapa? Af reynslu annarra þjóða ættum við að hafa lært að forðast langtímaatvinnuleysi og harðan niðurskurð. Þá lexíu virðist hvorki ríkisstjórnin né Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa lært, því miður.

Í stað þess að skera niður og miðstýra allri þjónustu frá einum stað ættum við að setja okkur langtímamarkmið, það markmið að samhliða nauðsynlegum niðurskurði í opinberum rekstri næstu þrjú til fimm ár færðum við verkefnin, þjónustuna, til fólksins um land allt. Í stað þess að einblína á niðurskurð og samdrátt ættum við að horfa á umbreytingu og tækifæri í að bæta grunnþjónustuna með minni tilkostnaði. Í stað háskattastefnu ríkisstjórnarinnar eigum við að laga skattkerfið að tvennu, annars vegar réttlátara samfélagi og hins vegar samkeppnisfæru samfélagi sem byggir upp atvinnu. Þannig munum við koma neyslunni aftur í gang, þannig sköpum við ný störf handa öllum vinnufúsum höndum. Sú leið er best fallin til að tryggja stöðugleika hjá heimilum og fyrirtækjum og slá þar með raunverulega skjaldborg um það mikilsverðasta í samfélaginu, sem er fólkið og heimilin.

Við eigum ótal tækifæri. Fá lönd í heiminum geyma eins margar öflugar auðlindir og Ísland. Þar er mannauðurinn mikilvægastur, þekking og frumkvæði eiga að verða okkar aðalsmerki, ungrar og velmenntaðrar þjóðar. Samtakamáttur þjóðarinnar er mikill þegar þörf er á. Þjóðin hefur margoft áður sýnt hvers hún er megnug ef samvinna og samstaða næst með henni allri. Þá eru náttúruauðlindir okkar svo fjölbreyttar og öflugar að furðu má sæta að við skulum sitja í þeirri stöðu sem raun ber vitni. Nýting lands og sjávar til matvælaframleiðslu, til innanlandsneyslu og eins öflugasta matarútflutnings sem þekkist sparar bæði gjaldeyri og aflar.

Það er sérkennileg ríkisstjórn sem með vanhugsuðum hætti og yfirlýsingum um skyndilegar breytingar á starfsumhverfi grundvallaratvinnuveganna vegur að stöðugleika og framþróun í stað þess að styðja við bakið á þeim greinum sem munu verða meginstólpar í endurreisn íslensks efnahagslífs.

Við höfum á síðustu árum tekið stórstíg skref í nýtingu orkuauðlindanna. Þar erum við í fararbroddi ríkja í að nýta endurnýjanlega orkugjafa til margvíslegra nota. Við þurfum og munum ná samstöðu þjóðarinnar um þessa mikilvægu atvinnugrein. Öfgar, hvort sem er í nýtingu eða vernd, eiga ekki við.

Orð forseta við þingsetningu og eins orð dr. Pachauri, formanns vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, styðja að orðspor okkar í þessum geira er gott og mun betra en stundum hefur verið sett fram í átakaumræðu innan lands á síðustu árum. Sú atlaga að atvinnugreininni sem ósamstiga ríkisstjórn veldur, þar sem ríkisvaldið bregður sífellt fæti fyrir uppbyggingu í þessum geira, er óskiljanleg. Ábyrgð ríkisstjórnar á að viðhalda háu atvinnuleysisstigi og stefna fólki út í vonleysi langtímaatvinnuleysis er mikil.

Góðir landsmenn. Við verðum að nýta auðlindir okkar, það má öllum vera augljóst. Sá ágæti maður og einn fremsti hagfræðingur samtímans Joseph Stiglitz benti einmitt á nauðsyn þess í heimsókn sinni hingað til lands á dögunum. Þar erum við framsóknarmenn samstiga fræðimanninum og höfum alltaf talað fyrir margvíslegri nýtingu auðlinda lands og sjávar með sjálfbærni og verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið að leiðarljósi. En nýting náttúruauðlinda snýst ekki aðeins um álver eins og skilja mætti af orðræðu síðustu ára og átökum. Margvísleg önnur störf vaxa upp úr þekkingariðnaðinum og þjónustu við orku- og virkjanageirann. Við þurfum að taka forustu í því sem oft er kallaður græni iðnaðurinn, eða græni geirinn. Þar eigum við ótal möguleika og spennandi fyrirtæki sem bíða eftir að fá eðlilega athygli. Ferðaþjónustan, sem hefur vaxið og dafnað hratt á síðustu árum, nýtir sér einmitt náttúruna sem auðlind á margvíslegan hátt. Fjölbreytt nýting auðlinda hefur á undanförnum árum fært okkur fjölmörg ný störf um land allt og aflað gríðarlegs gjaldeyris. Margar aðrar atvinnugreinar og samfélagsþætti mætti nefna sem verða undirstöður endurreisnarinnar. Aukin menntun, ekki síst starfsmenntun, er ein þeirra.

Góðir Íslendingar. Með samstöðu og samvinnu náum við langt. Réttlátara og sanngjarnara samfélag hlýtur að vera markmið okkar. Með því að snúa bökum saman gegn ytri ógnunum og með samtakamætti í að nýta möguleika okkar til atvinnusköpunar munum við ná settu marki. Framsóknarflokkurinn er hér eftir sem hingað til reiðbúinn að leggja öllum góðum málum lið. Við þurfum að sækja fram með von um bjartara og betra samfélag að leiðarljósi. Hófsemi og skynsemi eiga að verða ein kjörorð hins nýja samfélags okkar, réttlæti og samstaða önnur. Þá mun okkur vegna vel. — Góðar stundir.