138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vonaðist til þess að hæstv. forsætisráðherra mundi verja meiri tíma í að útlista hvað til stæði að gera til þess að koma þjóðinni úr þeim ógöngum sem hún er í en að reyna enn eina ferðina að stimpla inn þá söguskoðun sem Samfylkingin vill koma inn hjá þjóðinni einfaldlega vegna þess að með því vonast Samfylkingin og ráðherrar hennar til þess að geta falið eigin sök á því hvernig fór. Ef einhver flokkur er flokkur hrunsins hlýtur það að vera flokkurinn sem gerði hér mistök upp á hvern einasta dag í meira en ár þegar nánast öllum öðrum var orðið ljóst í hvað stefndi, þegar Framsóknarflokkurinn á þingi reyndi ítrekað að vara við hættumerkjunum. Samfylkingin brást ekki við og afleiðinguna þekkja allir nú. Í stað þess að horfast í augu við það er eina ferðina enn reynt að setja þetta allt á einkavæðingu bankanna árið 2004. Framsóknarmenn skorast ekkert undan því að þar hafi eflaust mistök verið gerð. Svo alvarlega litu þeir það að flokkurinn réðst í endurnýjun, sem er, held ég, einsdæmi í sögu íslenskra stjórnmála.

Hvernig var það nú með Glitni sem áður hét Íslandsbanki? Var hann einkavæddur af Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki? Hvernig fór fyrir þeim banka, fór hann ekki á hausinn? Var hann ekki fyrsti bankinn sem féll og dró kerfið niður með sér?

Er það ekki svo, hæstv. forseti, að í raun og veru gerðist það sem gerðist vegna þess að hér hafði verið komið upp fjármálakerfi sem ekki var sjálfbært, fjármálakerfi sem Alþýðuflokkurinn og síðan Samfylkingin börðust fyrir allt frá 1991, m.a. með innleiðingu EES-samningsins, sem hafði margt gott í för með sér en sýnir nú að hann var þó gallaður að ýmsu leyti?