138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:53]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri það á formanni Framsóknarflokksins að honum líður illa þegar verið er að minnast á einkavæðingu bankanna 2004, sem ég er alveg sannfærð um að er upphafið að því hruni sem við stöndum nú frammi fyrir.

Þó að hv. þingmaður og formaður Framsóknarflokksins hafi ekki verið kominn til valda í Framsóknarflokknum á þessum tíma á flokkur hans mikinn þátt í þeim erfiðleikum sem við erum í. Við vitum að þau helmingaskipti sem fóru fram varðandi einkavæðingu bankanna eru kapítuli út af fyrir sig og ég er alveg viss um að þegar sagan er skráð verður þetta eitt af því sem verður talin vera meginástæðan fyrir orsökum þessa hruns. Það er ekkert verið að draga af því þegar hv. þingmaður segir að við, sem höfum verið í því að bjarga því sem bjargað verður á þessum síðustu mánuðum, gerum mistök upp á hvern einasta dag, að við höfum ekkert gert hér til þess að endurreisa efnahagslífið. Það er auðvitað alrangt og það trúir því ekki nokkur maður nema hv. þingmaður Framsóknarflokksins og kannski örfáir aðrir hér inni í salnum með honum, menn verða að líta á verkin sem við höfum unnið að undanförnu.

Við höfum verið að endurreisa bankakerfið, við höfum verið að vinna að aðgerðum til þess að bæta stöðu skuldugra heimila og það er allt vel á veg komið. Okkur vantar herslumuninn til þess að geta sagt: Við erum á leiðinni upp úr þessu hruni. Til þess þurfum við að styrkja gjaldeyrisforða okkar og ég veit ekki hvaða leiðir hv. þingmaður hefur til þess aðrar en að þiggja þau lán sem alþjóðasamfélagið réttir okkur þó í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Norðurlandalánin. Ég veit ekki til þess að það sem hv. þingmaður teflir hér fram, einhverjir tvö þúsund milljarðar (Forseti hringir.) frá Noregi, sé í hendi. Það væri mjög gott ef hv. þingmaður mundi skýra það nánar fyrir okkur í ræðu sinni hér á eftir.