138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:00]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessa munnlegu skýrslu og vil bera upp við hana örfáar spurningar í tilefni af framsögu hennar.

Í fyrsta lagi þetta: Það er oft talað um að það standi til að gera eitt og það væri gott að gera annað. Í ræðu sinni vék hæstv. forsætisráðherra að því að margir í þjóðfélaginu gerðu athugasemdir við að margir valdahópar færu enn með þau völd sem þeir hefðu haft í gegnum hrunið allt saman. Við höfum haft spurnir af því að ráðherrann hafi skrifað bönkunum bréf og spurst fyrir um með hvaða hætti þeir ætli að taka á eigendamálum þeim sem þarna er um að ræða. Þá er spurningin þessi: Hvað hefur ríkisstjórnin gert til að beita sér fyrir einhverjum breytingum á þessu sviði og hvað hyggst hún gera? Hvað er það sem ríkisstjórnin á eftir ógert til að hrinda í framkvæmd þeim breytingum sem hæstv. forsætisráðherra telur að nauðsynlegt sé að gera á þeim valdahópum og klíkum og öðru sem svo gjarnan er vísað til í þessari umræðu?

Í öðru lagi þetta: Það er oft gripið til hugtaksins „norrænt velferðarsamfélag“. Er það þannig að hæstv. forsætisráðherra telji til að mynda að eitthvert heilbrigðiskerfi á Norðurlöndunum sé betra en það íslenska. Hvað er það í heilbrigðiskerfum Norðurlandanna sem stendur svona framar okkar kerfi sem hefur reynst okkur ágætt, traust og áreiðanlegt þótt enn megi gera þar ýmsar betrumbætur? Er norrænt velferðarsamfélag sem alltaf er verið að tala um í þessari umræðu kannski bara innantómt slagorð? Er ekki Ísland einmitt norrænt velferðarsamfélag þar sem við erum með öflugt menntakerfi og traust heilbrigðiskerfi? Eða hvað er það í heilbrigðiskerfi eða menntakerfi hinna Norðurlandanna eða í velferðarkerfinu almennt sem hæstv. forsætisráðherra telur að skorti á á Íslandi?