138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:32]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í dag er ár liðið frá bankahruninu og á slíkum tímamótum er nauðsynlegt að staldra við og velta ekki endilega bara fyrir sér því sem olli þessu bankahruni heldur líka hvort viðbrögð okkar undanfarið ár og ekki síst viðbrögð stjórnvalda hafi verið rétt eða röng. Ég fagna því alveg sérstaklega að hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, skuli vera tilbúinn að læra af mistökunum og viðurkenna þau hér í ræðustól, og ég held að sum okkar getum tekið hann sem fyrirmynd í þeim efnum.

Eitt af því jákvæðasta sem gert var strax í upphafi fjármálakreppunnar var að stjórnvöld tryggðu virka greiðslumiðlun fjármálakerfisins með því að ábyrgjast allar bankainnstæður að fullu. Að mínu mati var þessi aðgerð of víðtæk þar sem skattgreiðendur voru í raun beðnir eða látnir bæta öllum, bæði þeim sem áttu lágar innstæður og hinum sem áttu mjög háar innstæður inni á bankareikningum, allan skaðann af hruni einkabankanna. Og því hefur verið fleygt að 10% fjármagnseigenda hafi átt um 70% af innstæðuupphæðinni sem skattgreiðendur tryggðu. Þetta er eitt af því sem ég mundi vilja fá nánari upplýsingar um hjá hæstv. forsætisráðherra.

Með öðrum orðum, sú aðgerð að tryggja innstæður að fullu fól í sér mikla eignatilfærslu frá skattgreiðendum til fjármagnseigenda sem birtist m.a. í því að nú þarf ríkið að leggja ríkisbönkunum til um 200 milljarða í eigið fé. Auk þess var tekin sú ákvörðun að bæta fjármagnseigendum tap vegna peningamarkaðssjóða bankanna og er talið að sú ákvörðun hafi kostað skattgreiðendur a.m.k. um 200 milljarða. Sú staðreynd að ekki var sett þak á upphæðina sem ríkið ábyrgðist varðandi bankainnstæður hefur leitt til þess að í dag er lítið svigrúm til þess að draga úr eignatilfærslunni sem átt hefur sér stað frá skuldurum til fjármagnseigenda. Boðaðar aðgerðir félags- og tryggingamálaráðherra eiga að einhverju leyti að taka á þessari eignatilfærslu en ekki nema að hluta til þar sem lánin verða áfram verðtryggð með neysluvísitölunni.

Rannsóknir sýna að fjármálakreppur einkennast af mikilli eignatilfærslu frá þeim fátæku til þeirra ríku og því miður var þessi aðgerð stjórnvalda, að tryggja innstæður að fullu, í anda þess. Annað sem einkennir fjármálakreppur er aukinn ójöfnuður sem stafar m.a. af auknu atvinnuleysi og niðurskurði velferðarkerfisins. Markmið hagstjórnarinnar á að vera að auka efnahagslega velferð og leiðirnar að því markmiði eru aðgerðir sem tryggja fulla atvinnu, hagvöxt og stöðugleika til lengri tíma. Efnahagsstefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda mun ekki tryggja þessi markmið. Markmið hennar er aðeins að tryggja að fjármagnseigendur fái sæmilega ávöxtun á fé sitt á meðan það er lokað inni í hagkerfinu og síðan að Seðlabankinn hafi bolmagn til að kaupa krónurnar af þessum fjármagnseigendum þegar hægt verður að afnema gjaldeyrishöftin án þess að krónan fari í frjálst fall.

Hagstjórnartækin sem íslensk stjórnvöld eru þvinguð af AGS til að nota eru hátt vaxtastig, mikil skuldsetning vegna gjaldeyrisvarasjóðsins og allt of mikill niðurskurður á of stuttum tíma. Þessi meðul AGS eru gamalkunnug. Nýleg könnun sem gerð var af miðstöð fyrir rannsóknir á efnahags- og stjórnmálum í Washington leiddi í ljós að af 41 landi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur haft afskipti af undanfarin ár hefur 31 land verið þvingað til að beita kreppudýpkandi hagstjórnaraðgerðum eins og háu vaxtastigi, niðurskurði velferðarkerfisins og aðhaldssemi hvað varðar aukið peningamagn.

Með öðrum orðum, meira en áratug eftir að efnahagskreppan í Asíu beindi athyglinni að meiri háttar mistökum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er sjóðurinn enn að gera svipuð mistök í mörgum löndum, sérstaklega í þróunarlöndunum. Á sama tíma og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn styður fjárhagslega örvandi aðgerðir í ríku löndunum þvingar sjóðurinn þróunarlöndin til þess að innleiða kreppudýpkandi hagstjórnaraðgerðir.

Þegar íslensk stjórnvöld gengu til samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í nóvember á síðasta ári leyfði sjóðurinn hallarekstur á ríkissjóði árin 2008 og 2009 og það var leyft í ljósi þess hversu stórt bankahrunið hér á landi var. Hallareksturinn var í raun stefnubreyting hjá sjóðnum og átti að vera dæmi um að AGS hefði lært eitthvað af Asíukrísunni. Sjóðurinn lagði þó áherslu á að ná ætti jafnvægi í ríkisfjármálum á fimm árum eða á árinu 2013. Í ár verður hallinn á ríkissjóði væntanlega um 182 milljarðar og meginástæða hans er mikill samdráttur í tekjum ríkissjóðs. Á sama tíma eða á árunum 2008–2009 hafa ríkisútgjöld haldist óbreytt sem er mikill ávinningur í ljósi þess að verg landsframleiðsla dróst saman um 8,4%. Vandamál okkar eru því ekki vaxandi ríkisútgjöld heldur mikið tekjutap ríkissjóðs sem stafar af miklum samdrætti í efnahagslífinu.

Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir miklu aðhaldi í ríkisfjármálum á næsta ári og skera á hallann niður um 95 milljarða. Með öðrum orðum, á næsta ári, árið 2010, verða mikil umskipti í efnahagsstjórninni því að markmið efnahagsstjórnarinnar verður ekki lengur að draga úr samdráttaráhrifunum af völdum fjármálakreppunnar heldur að draga úr umsvifum ríkissjóðs sem auka mun á samdráttinn. Þetta telja margir hagfræðingar of snögg umskipti í ljósi þess að fjármálakreppan hér á landi er mun stærri að umfangi en nokkurs staðar annars staðar, 85% af bankakerfinu hrundu sl. haust.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er þekktur fyrir að leggja of mikla áherslu á að ná jafnvægi í ríkisfjármálum, sem m.a. hefur leitt til mun dýpri kreppu en annars hefði orðið. Dýpt kreppunnar skiptir miklu máli þar sem bæði fyrirtæki og einstaklingar verða fyrir miklum skaða á leiðinni niður. Í raun er verið að eyðileggja auð þjóðarinnar þar sem ekki er hægt að endurreisa fyrirtæki og einstaklingar sem verða gjaldþrota. Hægari niðurskurður mundi þýða minni samdrátt en á móti mundi hann draga úr hagvexti þegar hagkerfið er farið að ná sér á nýjan leik.

Strax í nóvember varaði ég við samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og því miður hafa öll varnaðarorð mín reynst rétt. Þrátt fyrir að sjóðurinn hafi verið með yfirlýsingar um að hann hafi lært af mistökum og að sú efnahagsáætlun sem við samþykktum væri síbreytileg og mundi taka mið af aðstæðum hér á landi, hefur lítið breyst í afstöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þess hvernig taka beri á fjármálakreppu. Sjóðurinn hefur í raun verið að herða tökin á okkur og veikt svo um munar undirstöður efnahagslífsins hér á landi þetta tæpa ár sem við höfum fylgt efnahagsstefnu hans. Ég óttast að of hraður niðurskurður á halla ríkissjóðs muni veikja mjög hið litla velferðarkerfi sem er til staðar hér á landi. Þetta er lítið velferðarkerfi samanborið við velferðarkerfi Norðurlandanna. Útgjöld til velferðarmála á komandi ári verða ekki nema um 40% af vergri landsframleiðslu. Í Svíþjóð fór þetta hlutfall upp í 55% af vergri landsframleiðslu árin eftir hrun bankanna.

Virðulegi forseti. Það er enn tækifæri til að losna úr viðjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins áður en það er um seinan. Ég skora á stjórnvöld að endurskoða afstöðu sína til sjóðsins og fara fram á að sjóðurinn meðhöndli okkur eins og ríka þjóð en ekki eins og þróunarríki sem gera á enn fátækara. Það sem við þurfum á næstunni er að fá Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að samþykkja verulega lækkun vaxta, hægari niðurskurð á halla ríkissjóðs og áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna sem m.a. mun fela í sér skattlagningu á útstreymi fjármagns og uppboðsmarkaði. Efnahagsáætlun sem ekki felur í sér þessar aðgerðir mun gera okkur háð Alþjóðagjaldeyrissjóðnum næstu árin og það eitt ætti að vera ástæða til þess að staldra núna við og gera kröfu um að sú efnahagsáætlun sem sjóðurinn lofaði að yrði síbreytileg taki mið af veikari efnahagsstoðum atvinnulífsins núna eftir að atvinnulífið hefur þurft að búa við vaxtastig sem er alla vega 10 prósentustigum hærra en almennt gerist í nágrannalöndunum.

Ég endurtek, virðulegi forseti, enn og aftur þá ósk mína að við endurskoðum samstarf okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sérstaklega ef sjóðurinn er ekki tilbúinn til þess að breyta eða aðlaga efnahagsáætlun sína að þeim aðstæðum sem skapast hafa eftir að hagstjórnartækjum hans var beitt hérna.