138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:36]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Núna er rétt ár liðið frá því að gengi krónunnar hrundi og íslensku bankarnir féllu. Viðburðaríkara ár hefur ekkert okkar lifað og mun varla lifa nokkurn tíma. Þetta ár hefur verið ár óvissu, ótta, undrunar, oft reiði og hneykslunar og sú örlagasaga verður seint sögð með fullnægjandi hætti.

Hér ætla ég að reifa örlítinn hluta atburðarásarinnar á þeim skamma tíma sem ég hef, eins og hún leit út frá mínum sjónarhóli sem viðskiptaráðherra á þessum tíma. Yfir Ísland gekk ekki ein kreppa á liðnu ári heldur tvær. Sú fyrri og sú sem hefur valdið íslenskum heimilum mestum búsifjum enn sem komið er, er gjaldeyriskreppan sem hófst af fullum þunga vorið 2008. Þá byrjar gengi krónunnar að falla hraðar heldur en nokkru sinni fyrr. Afleiðingarnar voru fyrirsjáanlegar, höfuðstólar erlendra lána snarhækkuðu, verðbólga rauk upp og þar með höfuðstóll verðtryggðra lána, bankarnir hættu að lána, húsnæðismarkaðurinn fraus og atvinnuleysi jókst.

Í sumarbyrjun vöruðu margir ábyrgir aðilar við grafalvarlegu ástandi um haustið ef ekki yrði gripið til aðgerða. Hér hefur það gerst sem margir höfðu varað við. Krónan var of lítil og veikburða til að hún gæti staðist áhlaup eða sviptingar á galopnum alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum. Um leið var staða gjaldmiðilsins viðkvæmt deilumál í stjórnmálaumræðunni hér. Hlutfallsvandinn á milli opins alþjóðlegs viðskipta- og fjármálalífs annars vegar og minnsta fljótandi gjaldmiðils í veröldinni hins vegar var eldfimt mál í íslenskum stjórnmálum. Því var kíkirinn oft settur fyrir blinda augað þegar þessi mál komu til alvarlegrar umræðu. Hávaxtastefna um árabil hafði laðað hingað erlenda áhættufjárfesta sem veðjuðu á framtíðargengi krónunnar, þeir tóku stöðu með og móti og það þurfti ekki umsvifamikla þátttakendur á markaði til að sveifla gengi krónunnar mikið til og frá. Sumir segja að íslensku viðskiptabankarnir hafi átt umtalsverðan hluta að máli og það skýrist væntanlega innan tíðar.

En gerendurnir voru ekki aðalatriðið af því að meginvandinn var kerfislægur. Seðlabankinn og íslenska ríkið höfðu enga burði til að verja krónuna ef til slíkra sviptinga kæmi sem þarna urðu og þar liggur ábyrgð stjórnvalda umfram allt annað. Kerfi sem hvíldi á grunni einkavæddra banka með opnu aðgengi að 500 milljóna markaði gegnum EES-samninginn var hinn djúpstæði vandi sem leiddi til efnahagsfárviðris þegar til kastanna kom.

Við hættunni á kerfisbresti höfðu margir varað og margir rætt um nauðsynlegar róttækar aðgerðir til að gerbreyta um stefnu í peningamálum. Þar var að sjálfsögðu gjaldmiðillinn þungamiðjan. Slíkur málflutningur vakti sjaldnast ánægju andstæðinga umsóknar um aðild að Evrópusambandinu sem sökuðu þá sem þannig töluðu um að tala niður krónuna þegar við vorum einfaldlega að lýsa efnahagslegum veruleika sem blasti við. En úr því sem komið var þegar hrun krónunnar var hafið með tilheyrandi skelfilegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki varð að grípa til bráðaaðgerða. Alþingi samþykkti vorið 2008 heimild til ríkissjóðs til gríðarlegrar lántöku, upp á hundruð milljarða. Markmiðið var að styrkja gjaldeyrisforðann, sýna fram á að Seðlabankinn hefði afl til að grípa til aðgerða og auka þannig traust á krónunni. Við vitum hvernig fór. Þeim tækifærum sem buðust til lántöku var hafnað á þeim forsendum að kjörin væru ekki nógu góð og gjaldmiðillinn náði sér aldrei á strik. Við fall bankanna hrapaði krónan enn þá neðar þangað til nauðsynlegt var að grípa til gjaldeyrishafta þannig að við hurfum áratugi aftur í tímann.

Það þurfti þessa ömurlegu atburðarás og þessar nöturlegu staðreyndir til þess að á liðnum vetri voru flestir orðnir þeirrar skoðunar að gjaldmiðillinn væri ekki nothæfur til frambúðar. Sumir vildu taka upp evruna einhliða, aðrir norskar krónur, bandaríska dali eða svissneska franka. Flestir áttu sinn uppáhaldsgjaldmiðil, allt nema krónuna. Sérfræðingar rekja 70–80% af heildartjóninu í efnahagshruninu til hruns krónunnar. Fall bankanna skýrir 20–30%. Þetta stafar af því að fall krónunnar kemur fram í hærra verðlagi, verðbólgu, gríðarlegum hækkunum erlendra skulda fyrirtækja, sveitarfélaga, ríkis og einstaklinga. Þess vegna er tjón okkar Íslendinga svona margfalt í fjármálakreppunni umfram tjón annarra þjóða sem þó urðu fyrir gífurlegum áföllum. Þær hafa notið víðtæks stuðnings alþjóðastofnana, svo sem Seðlabanka Evrópu, vegna þess að þær eru aðilar að Evrópusambandinu óháð því hvort þær hafa tekið upp evru eða ekki. Krónan, hvaða umgjörð sem við búum henni, getur ekki verið framtíðargjaldmiðill Íslendinga ef við ætlum að eiga áfram í alþjóðlegum samskiptum og viðskiptum og skapa íslenskum heimilum sömu kjör og tíðkast í nágrannalöndunum.

Hlutverk stjórnvalda og eftirlitsstofnana í aðdraganda gengishruns og bankafalls er meðal þess sem við munum helst geta dregið lærdóm af þegar fram í sækir og litið er til baka. Hart er deilt á Fjármálaeftirlit og Seðlabanka fyrir eftirlit með fjármálakerfinu árin eftir einkavæðingu og fram að þroti. Við búum við fyrirkomulag þar sem Seðlabankinn fylgist með lausafjárstöðu, Fjármálaeftirlitið með eiginfjárstöðu og rekstri. Fjármálakerfið á Íslandi tífaldaðist á sex árum. Það gerist ekki bara fyrir atorku bankamanna heldur lá pólitísk hvatning á bak við útrásina. Verkefni Fjármálaeftirlits og Seðlabanka jukust í samræmi við vöxt bankanna, án þess að þessum stofnunum væri gert kleift að axla aukna ábyrgð. Sérstaklega var Fjármálaeftirlitið vanbúið að starfsfólki til að fylgja bönkunum eftir á fluginu.

Vorið 2007 var tekin um það pólitísk ákvörðun að efla eftirlitið, m.a. með helmings hækkun fjármagns á ári og nýju fólki til stjórnarsetu með skýr markmið í huga, en allt var þetta of seint og á þessu bera að sjálfsögðu andvaralausir stjórnmálamenn alla ábyrgð. En grundvallarspurningin er, af hverju voru ekki sett bönd á útrás bankanna heldur þeir hvattir til hennar frá einkavæðingu og árin á eftir?

Eftir að ríkisstjórn Geirs Haarde tók við völdum og váboðar erfiðleikanna gerðu vart við sig var reynt að koma böndum á þróunina en það var ekki gert af nægilegri festu. Þá hefði tilurð innstæðureikninga í útibúum erlendis átt að vera stjórnvöldum tilefni til harðvítrugra aðgerða. Vöxtur og viðgangur þeirra ber vott um ábyrgðarleysi þeirra sem til þeirra stofnuðu og andvaraleysi stjórnvalda. Hér heima var tilurð Icesave-reikningana t.d. fagnað árið 2006 og árið 2007 voru þeir valdir af hópi íslenskra hagfræðinga í þriðja sæti yfir viðskiptaævintýri ársins. Landsbankinn þurfti ekki leyfi frá FME eða ráðuneytum til að stofna reikningana. Til þess hafði hann fulla heimild á íslensku starfsleyfi samkvæmt ákvæðum EES um frjálsa fjármagnsflutninga. Því hófst starfsemin með einfaldri tilkynningu um að þeir væru í farvatninu haustið 2005. En auðvitað sáu margir hættuna sem var á ferðum. Meðal þeirra var þáverandi formaður stjórnar FME sem lýsti því yfir í blaðaviðtölum í febrúar 2008 að forgangsverkefni væri að koma starfsemi bankanna úr útibúum í dótturfélög. Að því var unnið fram eftir árinu 2008 en það var rofið af alþjóðlegri atburðarás með keðjuverkun sem allir þekkja og ekkert varð úr og mistókst að ljúka því mikla verkefni.

Pólitíski veruleikinn eftir fall bankanna var ískaldur. Frá hruni krónunnar í mars og fram að falli bankanna hafði fasteignamarkaðurinn frosið, atvinnuleysi aukist, verðbólgan jókst stjórnlaust vegna gengiskreppunnar og höfuðstóll lána hækkaði jafnt og þétt. Innreið bankanna á húsnæðislánamarkaðinn 2004 og 90% útlánastefna Íbúðalánasjóðs höfðu skapað fordæmislitla fasteignaþenslu sem myndaði grunn að hrikalegri skuldsetningu þúsunda fjölskyldna og því þunga höggi sem þorri fólks varð fyrir. Allt of hátt skráð gengi varð einnig til að ýta undir mikla erlenda lántöku fólks og fyrirtækja.

Efnahagshrunið hér varð alvarlegra en víðast annars staðar vegna aðgerða og aðgerðaleysis stjórnmálamanna. Vegna þess skuldar íslenska stjórnmálastéttin þjóðinni afsökunarbeiðni. Þar eru fáir undanskildir eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á fyrr í dag, hvorki þeir sem stýrðu samfélaginu frá miðjum 10. áratugnum né aðrir þeir sem börðust gegn því að skikki yrði komið á gengismál íslensku þjóðarinnar. Ég hef áður beðist afsökunar fyrir mitt leyti og ítreka það hér. Verðmætasti lærdómurinn af liðnu ári er friðurinn í samfélaginu. Það er okkur sem þjóð nauðsynlegt að slíta hann aldrei svo í sundur að sameiginlegri velferð okkar sé ógnað. Því miður marka hörð átök undangenginna ára, hatrammir flokkadrættir í stjórnmálum og viðskiptalífi upptaktinn af því hrikalega uppgjöri sem varð sl. vetur. Stjórnmálastéttinni ber að sinna þeirri frumskyldu að ná sátt um framtíðarverkefnin, setja sem kostur er til hliðar ágreining sem byggist oft á persónulegum ýfingum sem verða stundum stærri en það sem málin og stjórnmálin snúast um, það er framtíð íslensku þjóðarinnar. Þeim lærdómi megum við aldrei gleyma.