138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:52]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi kom fram í Morgunblaðinu að keypt hefði verið út úr sjóðum bankanna þriggja fyrir 80 og eitthvað milljarða. Alveg örugglega til innstæða fyrir því að hluta. Það er svo langt frá því að það sé allt glatað fé, það er mikil einföldun. Alveg eins og þegar því var haldið fram að ríkisstjórnin hefði tekið ákvörðun um að setja 200 milljarða inn í sjóðina. Nú er þessi tala orðin 85 milljarðar. Það er byggt á verðmati óháðra fyrirtækja og stjórna bankanna sjálfra. Eins og hv. þingmaður veit mætavel sjálf eru ákvarðanir um rekstur og slíka hluti innan bankanna teknar af stjórnum bankanna sjálfra. Hvort sem eigandinn að þeim er ríki, þeir eru sparisjóðir eða einkabankar þá eru slíkar ákvarðanir teknar af þeim sem reka bankana en ekki ríkisstjórninni frá degi til dags, eins og hæstv. fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra geta örugglega skýrt betur út fyrir þingmanninum í betra tómi. Ákvarðanir um rekstur bankanna eru teknar innan þeirra dyra.

Ekkert hefur komið fram enn þá um hver endanleg uppgjör á þessum bréfum eru og hvað liggur matinu til grundvallar. Þetta var metið af nafngreindum fyrirtækjum einu sinni eða tvisvar og þar lá að baki upplausnarvirði sjóðanna. Örugglega er hægt að kalla nákvæmlega fram hvað kemur út úr uppgjörinu á þeim í lokin, enda var uppgjör sjóðanna mjög misjafnt, allt frá því að vera einhverjir tugir prósenta upp í það að sjóðir Kaupþings og Glitnis voru, minnir mig, gerðir upp með 85 og 89% verðmati þannig að það var mjög breytilegt líka.