138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisverð ræða sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson flutti áðan. Ræðan var eins konar söguskýring af hans hálfu, eins og ég skildi hana og upplifði. Upp úr í þessu öllu saman stendur að þingmaðurinn gerði enga tilraun til að horfa á stöðuna í dag eða inn í framtíðina. Staðan er nánast sú sama og var fyrir ári síðan. Frekar lítið hefur gerst hjá þeim ríkisstjórnum sem hafa setið síðan og Samfylkingin hefur verið í þeim öllum.

Í ræðu þingmannsins kom fram að of seint hafi verið brugðist við og ekki beitt nægilegum krafti til Fjármálaeftirlits m.a. Það er staðfesting á því sem við býsna mörg höfum haldið fram, að illa hafi verið haldið á málum eftir hrunið og að svo sé enn.

Mig langar að spyrja hv. þingmann m.a. um það þegar hann segir í ræðu sinni að reynt hafi verið að koma böndum á þróunina. Gæti hann í stuttu máli sagt í hverju það fólst? Ég átta mig ekki alveg á því. Eins væri ágætt ef hann færi yfir samskipti ríkisstjórnarinnar, ekki síst viðskiptaráðuneytisins — og Samfylkingarinnar sérstaklega — við erlend ríki rétt fyrir hrunið. Komið hefur fram að m.a. ýmis bréfaskipti áttu sér stað rétt fyrir hrun. Ekki var farið yfir þessa hluti í ræðu þingmannsins, kannski var það vegna tímaskorts og vona ég þá að hann tali síðar í dag og fari betur yfir þessa hluti.