138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:57]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ýmislegt var gert, a.m.k. á þeim tíma sem ég var þarna, til að koma böndum á þróunina. Langstórtækasta dæmið var þegar Kaupþing hugðist kaupa hollenska bankann NIBC. Þannig hefði Kaupþing nánast tvöfaldast að stærð, að mig minnir og ég segi það með fyrirvara. Ég held að hollenski bankinn hafi verið álíka stór og Kaupþing. Bankinn hefði nánast tvöfaldast og það hefði haft mikil áhrif á íslenska bankakerfið. Eins og allir vita var Kaupþing upp undir helmingurinn af íslenska fjármálakerfinu. Þess vegna var, eins og fram hefur komið áður og kemur fram í ágætu viðtali við hæstv. fjármálaráðherra í bresku dagblaði í dag, mikið reiðarslag þegar bresk yfirvöld ákváðu að taka yfir bankann Kaupþing, Singer & Friedlander og loka honum, eina breska bankanum sem bresk stjórnvöld björguðu ekki. Það var gert daginn eftir að Landsbankinn féll og daginn eftir að Seðlabankinn ákvað til lána Kaupþingi til þrautavara tugi milljarða til að reyna að bjarga honum. Menn trúðu að honum væri viðbjargandi og hver veit nema honum hefði verið það ef bresk stjórnvöld hefðu ekki tekið hann yfir og þar með kolfellt bankann og helminginn af íslenska bankakerfinu. Fyrir atbeina Fjármálaeftirlits og stjórnvalda var komið í veg fyrir að þessi kaup gengju eftir í upphafi árs 2008 en þar með hefði íslenska bankakerfið stækkað gríðarlega til viðbótar.

Ýmsilegt annað var gert eins og ég nefndi áðan. Það var mikið unnið mánuðina fjóra til fimm fyrir hrun að því að koma útibúum í dótturfélög og margt fleira mætti tína þannig til í löngu máli.

Ég náði þessu með erlendu samskiptin ekki nákvæmlega, hvað þingmaðurinn var að spyrja um. Kannski gerir hann gleggri grein fyrir því á eftir.