138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé í sjálfu sér erfitt — og kannski var ósanngjarnt af mér að spyrja út í þessi samskipti — en ég var að velta fyrir mér hvort ráðherra gæti farið yfir hvernig ríkisstjórnin, og þá ekki síst viðskiptaráðuneytið, beitti sér dagana fyrir hrunið þegar um það var spurt af erlendum aðilum hvort þessir Icesave-reikningar og þessi erlendu viðskipti við íslensku bankana væru eðlileg og í lagi.

Ég skil vel ef hv. þingmaður vill fara yfir það síðar í lengra máli en þetta skiptir mjög miklu þegar við horfum til baka, eins og ríkisstjórninni, og sérstaklega Samfylkingunni, er tamt að gera. Horft er til baka og reynt að leita uppruna hrunsins þó svo að allir aðrir viti að þetta hrun var á alheimsvísu. Hins vegar skipta viðbrögðin miklu máli og við þurfum að spyrja okkur hvernig við getum lært af þessu og — ég held að það hafi komið fram í máli þingmannsins — hvað getum við lært af því sem fór úrskeiðis. Það hryggir mig að upplifun okkar margra sú að við séum ekki enn farin að læra, ekki sé enn þá tekið á málum með viðeigandi hætti og það hefur komið fram í máli þingmanna, m.a. hv. þm. Þórs Saaris, í dag að enn er verið að gaufast við ákveðna hluti.

Spurningin áðan sneri að samskiptum varðandi íslenska bankakerfið við erlenda aðila rétt fyrir hrun. Ég held að það væri í sjálfu sér tilefni í sérstaka umræðu síðar meir, fyrir okkur öll til að læra af. Þetta er ekki sagt af neinum kvikindisskap heldur bara til að læra hvað menn gerðu rangt við þetta hrun, hvaða aðferðum hefði átt að beita og á að beita næst þegar þetta gerist, því að hætta er á að þetta gerist aftur síðar.