138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:01]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mikil ósköp, þessi umræða gengur út á hvað við getum lært af því ástandi sem skapaðist í fyrrahaust. Það er fjöldamargt, eins og ég lagði upp í ræðu minni áðan og hef gert í greinum í blöðum o.s.frv. en slík umfjöllun er seint tæmandi. Eins og þingmaðurinn nefndi hefur alþjóðleg fjármálakreppa geisað síðasta árið og sérstaklega í lok síðasta árs. Alvarlegasta kreppa í heiminum í trúlega 80 ár náði miklum hæðum þegar bandaríski bankinn Lehman Brothers féll 15. september 2008 með hrikalegum afleiðingum, m.a. þeim að bankakerfi Vesturlanda var meira og minna tekið yfir af ríkinu í formi hlutafjáreignar í bönkunum. Stóru þjóðirnar gátu bjargað bönkum sínum í staðinn fyrir að láta þá falla, kannski með enn þá meiri tilkostnaði en við, það á eftir að koma í ljós. Íslenska kreppan varð miklu dýpri og alvarlegri en fjármálakreppur flestra annarra landa vegna þess kerfislæga vanda sem ég rakti áðan. Við byggðum upp á 4–5 árum stórt alþjóðlegt bankakerfi. Árin 2004, 2005, 2006 og 2007 stækkaði þetta kerfi alveg gríðarlega. Menn töluðu á hófstilltu máli um hlutfallsvanda milli bankakerfis og gjaldmiðils og að við gætum aldrei komið slíku kerfi til bjargar þegar á það reyndi í miklum erfiðleikum. Þess vegna hrundi það. Gjaldmiðillinn hrundi frá og með páskum og fram í október 2008 með hörmulegum afleiðingum. Þetta er sú tvöfalda djúpa kreppa sem við erum í og gerir hana illvígari en fjármálakreppur annarra landa sem glíma þó bara við annan vandann í einu.