138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að rétt sé að taka upp þráðinn þar sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, skildi við umræðuna. Átakanlegt var að fylgjast með því að í ræðu forsætisráðherra fyrr í dag, og í gærkvöldi, að þar var ekki nein framtíðarsýn. Ekki nein sýn á hvernig á að byggja upp íslenskt atvinnulíf, koma hagvexti af stað aftur og láta hjól atvinnulífsins snúast að nýju. Það er forsendan fyrir því að efnahagur taki við sér, hagur heimilanna batni, atvinnutækifærum fjölgi og annað þess háttar. Ekki er nein slík sýn sem er út af fyrir sig alvarlegt. Það endurspeglar kannski hvað sýnin er ómarkviss hvað umræðan í dag hefur verið ómarkviss.

Ég velti fyrir mér af hverju þessi umræða fari fram. Yfirskrift hennar er eitthvað á þá leið að ræða eigi efnahagshrunið fyrir ári og viðbrögð við því en vandinn er að það eru engar nýjar forsendur til að ræða það. Engar nýjar upplýsingar sem við getum tekið til umræðu hafa komið fram. Efnahagshrunið fyrir ári var stöðugt til umræðu hér síðasta vetur, í kosningabaráttunni í vor og í sumar af og til en það er ekkert nýtt í því. Ástæða hefði verið til að fara yfir störf og stefnu ríkisstjórnarinnar en ræða hæstv. forsætisráðherra var ekkert innlegg í þá umræðu. Hún horfði í baksýnisspegilinn allan tímann en ekki fram á við, ekkert nýtt var í ræðunni sem bætti við það sem hæstv. forsætisráðherra sagði í gærkvöldi eða þegar hæstv. forsætisráðherra tók fyrst til máls á þingi í því embætti í umræðum 4. febrúar sl. Ræðan sem hæstv. forsætisráðherra flutti í dag var nánast sú sama og hæstv. forsætisráðherra flutti 4. febrúar, lýsing á vandamálum og lýsing á ýmsum áformum um hitt og þetta sem ætti að gera og hennar sýn á það sem hefði orðið til þess að efnahagshrunið átti sér stað síðasta haust. Í þessu var ekkert nýtt þannig þessi umræða hlýtur að verða ómarkviss. Hún er einhvers konar útvíkkuð umræða um stefnuræðu, eldhúsdagsumræða sem hefur engan grunn til að byggja á. Ekki er fjallað um neitt konkret og ástæðan er fyrst og fremst sú að það er ekki nein sýn hjá þeim sem hafa valist til þess að leiða ríkisstjórn í þessu landi. Það er vandamálið og kannski er ekkert skrýtið að það skuli koma upp.

Staðreyndin er að ríkisstjórn landsins er í tætlum. Ríkisstjórn landsins virðist vera óstarfhæf og sjálfri sér sundurþykk um flesta hluti sem hún gerir. Ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um Icesave-málið og þann ágreining sem þar er greinilega uppi en önnur dæmi hafa komið fram. Á allra síðustu dögum hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar afneitað þáttum í fjárlagafrumvarpinu sem snúa að þeirra eigin ráðuneytum. Er þetta fjárlagafrumvarp fjármálaráðherra eins eða er þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar? Komu ráðherrar ríkisstjórnarinnar ekki að þessu verki? Hvernig stendur á því að tveim dögum eftir að fjárlagafrumvarp er lagt fram afneita einstakir ráðherrar þáttum sem snúa að ráðuneytum þeirra? Þetta er mjög sérkennilegt.

Í dag hefur talsmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Lilja Mósesdóttir, verið sá eini úr þeim flokki sem hefur talað. Ræðan sem hv. þingmaður flutti var ágæt. Hún var fín stjórnarandstöðuræða, en fjallaði ekki um stefnu ríkisstjórnarinnar. Þvert á móti var öll ræðan gagnrýni á þá efnahagsstefnu sem ríkisstjórnin rekur, stefnu sem ríkisstjórnin hefur mótað og starfar eftir í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Við þetta bætti hv. þm. Lilja Mósesdóttir því að sú stefna í ríkisfjármálum sem birtist í ríkisfjármálastefnu fjármálaráðherra og fjárlagafrumvarpinu sjálfu væri skaðleg. Hún fór yfir það og rökstuddi. Þetta var sérstaklega tilgreindur og skilgreindur talsmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessari umræðu og sá eini úr þeim flokki, eftir því sem ég best veit, sem hefur óskað eftir því að taka til máls. Þessar umræður fara fram við mjög sérkennilegar kringumstæður. Eini talsmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem tekur til máls talar gegn ríkisstjórninni og þeir tveir sem hafa talað af hálfu Samfylkingarinnar voru algerlega fastir í fortíðinni. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, fyrrv. hæstv. viðskiptaráðherra, endurflutti greinargerð um sína sýn á atburði sl. hausts og ekkert nýtt í því. Þetta sýnir vandræðaganginn sem við búum við. Eins og í eldhúsdagsumræðunni í gær er reynt að breiða yfir þetta með því að tala um eitthvað annað. Þeir sem töluðu af hálfu Vinstri grænna í gær töluðu undir rós en voru þó með ýmsum hætti að ýta í félaga sína í órólegu deildinni. Þeir sem tala af hálfu Samfylkingarinnar láta eins og ekkert sé að gerast, ekkert vandræðaástand sé. Á meðan skortir framtíðarsýn og það veldur okkur áhyggjum af framhaldinu, hvernig við eigum að takast á við þau vandamál sem við er að glíma þegar ríkisstjórn landsins virðist vera fullkomlega óstarfhæf. Þetta ástand má ekki vara lengi. Eitthvað verulega mikið þarf að gerast. Eins og hæstv. félagsmálaráðherra sagði svo ágætlega í gærkvöldi eftir að hafa staðið að ríkisstjórn í átta mánuði: Nú er kominn tími til að fara að gera eitthvað. Ég held að hæstv. félagsmálaráðherra hafi orðað það þannig að nú væri kominn tími til framkvæmda. Það er jákvætt að menn hafi áttað sig á því átta mánuðum eftir að núverandi ríkisstjórn í lítt breyttu formi tók við völdum